„Sláandi ójöfnuður“ á Spáni

„Spánn er að bregðast fólki sem lifir í fátækt sem …
„Spánn er að bregðast fólki sem lifir í fátækt sem mælist ein sú versta sem gerist innan Evrópusambandsins.“ AFP

Sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna segir fjölda fátækra á Spáni skelfilega mikinn og stjórnvöld séu að bregðast sínum fátækustu þegnum með alvarlegum hætti. 

Philip Alston, sérfræðingur SÞ í sárafátækt og mannréttindum, hafði nýlokið við 12 daga rannsóknarleiðangur um Spán þegar hann lét þessi ummæli falla. Sagðist hann hafa ferðast um svæði á Spáni sem margir Spánverjar myndu ekki þekkja sem hluta af sínu eigin landi.

Fátæktin sú versta sem gerist innan ESB

„Spánn er að bregðast fólki sem lifir í fátækt, sem mælist ein sú versta sem gerist innan Evrópusambandsins,“ sagði Alston. Jafnframt væri ójöfnuður meðal íbúa Spánar sláandi.

Philip Alston, sérfræðingur SÞ í sárafátækt og mannréttindum.
Philip Alston, sérfræðingur SÞ í sárafátækt og mannréttindum. AFP

Alston sagðist þó sjá ljós í myrkrinu vegna nýrrar, vinstrisinnaðrar ríkisstjórnar landsins, og staðfestu hennar um að ná fram jafnrétti í samfélaginu.

Á blaðamannafundi að loknu ferðalagi sínu um Spán lýsti Alston því hvernig hann hitti fólk sem bjó á ruslahaugum, fólk sem barðist við að vera borið út af heimilum sínum eða átti í vandræðum með að eiga fyrir kyndingu og mat, og aðfluttum verkamönnum sem lifðu við ein þau verstu skilyrði sem hann hafði nokkurn tímann séð.

„Sú mikla fátækt sem fyrirfinnst á Spáni ber augljós merki pólitískra ákvarðana sem teknar hafa verið undanfarinn áratug.“

Þeir fátækustu orðið eftir

Spánn fór ekki varhluta af efnahagshruninu árið 2008 og efnahagsleg lægð var þar ríkjandi næstu fimm ár. Efnahagslífið tók þó við sér að nýju árið 2013 og æ síðan hefur landsframleiðsla Spánar verið á við önnur Evrópulönd.

Margir hafa þó orðið eftir í þessum vexti efnahagslífsins á Spáni, og samkvæmt skýrslu SÞ er atvinnuleysi og húsnæðisvandi mikill, auk þess sem félagsmálakerfið sinnir hlutverki sínu illa.

Einn af hverjum fjórum Spánverjum á á hættu að lenda í fátækt og samfélagslegri útskúfun, á meðan Evrópusambandsmeðaltalið er einn af hverjum fimm. Þá mælist atvinnuleysi á Spáni 13,78%, sem er ríflega tvöfalt meira en meðalatvinnuleysi innan Evrópusambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert