Hong Kong herðir reglur vegna kórónuveirunnar

Yfirvöld í Hong Kong hafa gefið það út að allir þeir sem koma inn í landið frá Kína verði að halda sig í einangrun í tvær vikur. Þeir verða ýmist á halda sig á hótelherbergi sínu, í heimahúsi eða gefa sig fram við yfirvöld. Ef þeir fara ekki að settum reglum eiga þeir yfir höfði sér sektir eða jafnvel fangelsisvist. Breska ríkisútvarpið greinir frá

Dauðsföll af völdum kórónuveirunnar eru orðin 722 talsins og flest þeirra eru bundin við borgina Wuhan og nágrenni hennar. Um 34.500 manns hafa smitast af völdum hennar, samkvæmt upplýsingum frá kínverskum stjórnvöldum.  

Heilbrigðisstarfsmenn í Hong Kong hafa mótmælt síðustu daga. Þeir beina spjótum sínum að heilbrigðisyfirvöldum í landinu og krefjast þess að landamærum landsins við Kína verði alfarið lokað vegna kórónuveirunnar. Þeir krefjast þess einnig að yfirvöld tryggi að allur viðeigandi búnaður sé tiltækur vegna veirunnar.   

Í Hong Kong hefur einn látist og 26 hafa smitast.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert