Óttaslegið skíðafólk í Ölpunum

Ekki er búist við góðri mætingu á upplýsingafund sem halda á í Contamines-Montjoie, skíðabænum í frönsku Ölpunum þar sem fimm Bretar hafa greinst með kórónuveiruna.

„Að safna fólki saman í sal er kannski ekki besta hugmyndin,“ segir Marie-Jeanne sem starfar við útleigu á skíðabúnaði í bænum. „Þetta er það eina sem er talað um hér,“ segir hún og á við kórónuveiruna. 

Að hennar sögn hefur verið eitthvað um afbókanir en fréttir um Bretana sem voru gestir á skíðasvæðinu hefðu ekki getað komið á verri tíma fyrir svæðið því í dag er fyrsti dagurinn í vetrarfríi í skólum í hluta Frakklands, þar á meðal París. Í Frakklandi er vetrarfríum í skólum skipt upp til þess að létta álagið á ferðamannastöðum en þeir sem ekki eru í fríi núna fara í frí á næstu vikum. 

Les Contamines-Montjoie.
Les Contamines-Montjoie. AFP

Annick Roger, sem rekur upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í bænum, segir að það hafi verið mjög mikið um símtöl til þeirra í dag og talsvert um afbókanir. 

Venjulega á þessum tíma árs eru þúsundir ferðamanna í þessum 1.200 manna bæ en skíðasvæðið þar er hluti af skíðasvæðinu í kringum Mont Blac og aðeins nokkra kílómetra frá ítölsku landamærunum. 

„Einhverjir ferðamenn sem voru að koma akandi hafa snúið við,“ segir Pascale Haye, sem rekur verslun í bænum. „Það er synd og skömm að þetta gerist núna.“

Alls voru ellefu Bretar lagðir inn á sjúkrahús eftir að í ljós kom að Breti, sem var að koma frá Singapúr, hafði smitað fimm úr hópnum af kórónuveirunni. Meðal þeirra sýktu er barn en hópurinn dvaldi á skíðasvæðinu 24.-28. janúar. Sex til viðbótar úr hópnum voru lagðir inn á sjúkrahús þar sem þeir eru til rannsóknar en smitberinn var kominn til Bretlands þegar í ljós kom að hann var með kórónuveiruna sem hefur kostað yfir 700 manns lífið. Yfir 34.500 hafa greinst smitaðir.

Sumir í bænum trúa hreinlega ekki fréttunum. „Ég þarf að ferðast til Kína út af vinnu og ég hætti við ferðina. Og núna er veiran komin hingað þar sem ég er í skíðafríi,“ segir Olivier Campion. 

Lyfsalinn í bænum, Eric Paris, segir að þrátt fyrir að margir hafi spurt hafi hann neitað að afhenda grímur. Enda geri þær ekkert gagn héðan af þar sem meira en tvær vikur, sem er talinn smittíminn, eru liðnar frá því fólkið var þarna. „Ef allir gengju hér um með grímur getur þú rétt ímyndað þér taugaveiklunina.“ 

Hann segir að hann hafi haft samband við heilbrigðisstarfsfólk í héraðinu og svo virðist sem enginn sé veikur af kórónuveirunni þar. „Þó svo að þú sért slæmur í bakinu eftir að hafa skíðað í nokkra daga þýðir það ekki að þú sért með kórónuveiruna.“

Auglýsingaspjöld hanga uppi í verslunum og víðar þar sem fólk er beðið um að gæta fyllsta hreinlætis. Þorpsskólinn, þar sem breska barnið sótti tíma, verður lokaður næstu viku til öryggis.

AFP
mbl.is