„Megi Guð þyrma okkur“

Örmagna eftir langan akstur í leit að skjóli í norðausturhluta Sýrlands reynir hin 38 ára gamla Ghossoon að finna samastað fyrir fjölskyldu sína á flótta. 

„Guði sé lof að við eigum þó þennan bíl til að sofa í, jafnvel þótt hann sé ekki svo þægilegur,“ segir hún. „Við höfum eytt tveimur nóttum í bílnum enn sem komið er. Þetta verður þriðja nóttin. Við erum hér því við finnum engan annan samastað.“

Stjórnarher Sýrlands, með stuðningi Rússa, hefur undanfarna tvo mánuði sótt hart að síðustu brjóstvörn uppreisnarsveita í landinu með þeim afleiðingum að yfir 580.000 manns hafa þurft að flýja heimili sín. Fjölskyldur flýja úr héraðinu sem lýtur stjórn uppreisnarmanna. Þær flýja norður, búnar teppum og hlýjum fötum til að lifa af veturinn. En það hefur reynst þessum fjölskyldum erfitt að finna skjól við landamæri Tyrklands sem var lokað af yfirvöldum í Ankara vegna gríðarlegs fjölda flóttamanna sem streymt hafa inn í landið á síðustu 9 árum frá því borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst. 

Ghossoon og fjölskylda hennar leita sér skjóls.
Ghossoon og fjölskylda hennar leita sér skjóls. AFP

„Við fórum í flóttamannabúðirnar, en það var ekkert pláss þar,“ segir Ghossoon. „Við leituðum að heimili en leigan var of há. Hvar á ég að finna svona peninga?“

Sofa í bílum og meðfram vegum

Fyrir helgi kölluðu ýmis mannúðarsamtök eftir vopnahléi og lýstu ástandinu sem „mannúðlegum hamförum“. „Það eru einfaldlega fleiri flóttamenn en heimili,“ segir Bahia Zrikem, starfsmaður mannréttindasamtakanna Humanity Inclusion. „Margir sofa í bílum sínum eða í tjöldum meðfram vegunum.“

Nýjum flóttamannabúðum hefur verið komið á fót í útjaðri Maaret Misrin, en búðirnar eru strax yfirfullar. Þær eru hannaðar fyrir 350 fjölskyldur. Þar búa núna 800 fjölskyldur og ekkert lát er á straumi flóttamanna sem þangað leita. 

AFP

Mustafa Haj Ahman kom í búðirnar í síðustu viku ásamt eiginkonu sinni og sjö börnum. Fjölskyldan flúði heimabæinn Sarmin með ekkert nema föt til skiptanna, en þegar í búðirnar var komið var ekkert tjald laust fyrir fjölskylduna. 

„Við höfum sofið undir trjám síðastliðnar tvær nætur,“ sagði Ahmed við AFP. 

Hafa að minnsta kosti þak yfir höfuðið

Leiguverð í norðvesturhluta Sýrlands hefur margfaldast á undanförnum mánuðum. Það  hefur leitt til þess að Alaa Aboud, 38 ára, þurfti að flytja fjölskyldu sína frá norðanverðri Idlib til höfuðstaðar héraðsins sem er aðeins fáeina kílómetra frá víglínunni. 

AFP

Aboud býr nú ásamt eiginkonu sinni, fimm börnum, foreldrum sínum og tveimur bræðrum í hálfkláraðri byggingu í borginni. Þar eru engir gluggar, engar hurðir. 

„Þessi staður er skárri en margt annað, við höfum að minnsta kosti þak yfir höfuðuð,“ segir Aboud. Hann stefnir á að halda áfram norður með fjölskylduna þar sem hann óttast árás á borgina. Hann segist þó vona að ekki komi til þess. 

„Megi Guð þyrma okkur,“ segir hann. „Við erum þreytt.“



AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert