Taílenski morðinginn var felldur í nótt

Lögreglan í Taílandi felldi í nótt hermanninn Jakrap­hanth Thomma, sem drap 26 manns og særði tugi í taí­lensku borg­inni Nak­hon Ratchasima. Fjöldamorðinginn leitaði skjóls í verslunarmiðstöð í bænum og faldi sig þar, vopnaður hríðskotarifflum sem hann stal úr herstöðinni sem hann starfaði í. Hann skaut yfirmann sinn til bana rétt áður en hann hélt inn í borgina og framdi ódæðið. 

Morðinginn faldi sig í alla nótt í verslunarmiðstöðinni og náði sérsveitin loks að fella hann eftir margra klukkustunda atlögu að manninum. Vitað er að hann var skotinn til bana um sex og hálfri klukkustund eftir að fyrsta morðið var framið. Fram kom í nokkrum fréttamiðlum að talið var að hann hefði reynt að flýja út um bakdyr úr verslunarmiðstöðinni.

Faldi sig undir borði á veitingastað í fjórar klukkustundir

Ein af þeim sem komust lífs af lýsir því hvernig hún faldi sig inn á klósetti á fjórðu hæð byggingarinnar áður en hún flúði niður á aðra hæð og faldi sig undir borði á veitingastað í fjórar klukkustundir. Þar heyrði hún nokkur byssuskot áður en hermaður bjargaði henni og leiddi hana út.    

„Þetta er mjög óalgengt í Taílandi. Ég vil að þetta verði í síðasta sinn sem þetta ástand skapast,“ segir Prayuth Chan-ocha, forsætisráðherra landsins, eftir heimsókn til fórnarlamba árásarinnar á sjúkrahús. Þar liggja 57 manns særðir eftir árásarmanninn. 

Fjöldamorðinginn Jakrapanth Thomma vopnaður byssu í verslunarmiðstöðinni.
Fjöldamorðinginn Jakrapanth Thomma vopnaður byssu í verslunarmiðstöðinni. AFP

Ástæða morðanna er ekki ljós en talið er að maðurinn hafi álitið sig hafa verið hlunnfarinn í viðskiptum. Meðan á árásinni stóð birti hann mynd­ir og mynd­skeið á sam­fé­lags­miðlum. Í einni færslunni á Facebook spurði hann hvort hann ætti að gefast upp. Skömmu áður birti hann myndir af skotvopnum og skotum og sagði „nú er tími til að verða spenntur“ og „enginn getur forðast dauðann“. Facebook hefur tekið síðuna niður. 

Frétt BBC

För eftir byssuskot á glugga verslunarmiðstöðvarinnar.
För eftir byssuskot á glugga verslunarmiðstöðvarinnar. AFP
Prayut Chan-O-Cha, forsætisráðherra landsins í heimsókn á sjúkrahúsið.
Prayut Chan-O-Cha, forsætisráðherra landsins í heimsókn á sjúkrahúsið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert