Afsögn í skugga fasistahneykslis

Formannstíð Annegret Kramp-Karrenbauer í Kristilegum demókrötum hefur gengið brösuglega fyrir …
Formannstíð Annegret Kramp-Karrenbauer í Kristilegum demókrötum hefur gengið brösuglega fyrir sig hingað til og endar nú með skelli. AFP

Formaður Kristilegra demókrata (CDU) í Þýskalandi, Annegret Kramp-Karrenbauer, hefur sagt af sér sem formaður og verður því ekki kanslaraefni flokksins í þingkosningum 2021, eins og stóð til. Afsögnin kemur í kjölfar umdeilds kjörs flokkssystkina Kramp-Knarrenbauer á sambandslandsforseta í Thüringen, þar sem CDU valdi, ásamt AfD (þjóðernispopúlistum), mann úr FDP (Frjálslyndum demókrötum) til að gegna embættinu.

Með því að „leyfa“ AfD að velja sig sem sambandslandsforseta, var sagður stjórnmálamaður úr FDP, Thomas Kemmerich, talinn vera að fella enn eitt vígið í vörnunum sem haldið hefur verið uppi gegn flokknum. AfD hefur hvergi annars staðar verið hleypt að borðinu í stjórnarmyndunarviðræðum, formaður þeirra í Thüringen Björn Höcke má enda, að því er dómur skar úr um, löglega vera kallaður fasisti. Og flokkurinn hefur að öllu öðru leyti hvorki verið talinn húsum hæfur né í görðum græfur í hefð þýskrar borgaralegrar pólitíkur.

Berið höfuðið hátt – ekki hendurnar

CDU valdi Kemmerich í sömu atkvæðagreiðslu og AfD og olli það miklu fjaðrafoki, þar sem með því áttu þeir einnig að vera að greiða leið AfD að stjórnartaumunum. Það er enn á huldu með hvaða hætti skipulagning þessa kjörs fór fram, það er, hvort þetta hafi verið gert að yfirlögðu ráði; að CDU, AfD og FDP hafi snúið bökum saman og komið Kemmerich til valda, eða hvort þetta hafi verið svo að segja óvart. Einhverjir CDU-menn bera það fyrir sig að hafa ekkert vitað um að AfD myndi velja sama mann en aðrir segja það ódýra skýringu. Ef FDP hefði ekki viljað koma sínum manni til valda eftir þessari leið, hefði hann hafnað kjörinu um leið og það kom fram, og CDU hefði sömuleiðis dregið atkvæði sín til baka um leið og í ljós kom í hvaða félagsskap flokkurinn væri kominn. Það tafðist hins vegar og taldist með því ljóst að ráðstöfunin hafi ekki verið með öllu talin óæskileg af þeim sem höfðu kosið.

Thomas Kemmerich (Frjálslyndir demókratar) til vinstri tekur óbrosandi í höndina …
Thomas Kemmerich (Frjálslyndir demókratar) til vinstri tekur óbrosandi í höndina á Björn Höcke formanni AfD til hægri eftir að sá fyrrnefndi leyfði Höcke að koma sér til valda í Thüringen. Kemmerich hafði aðeins 2,5% atkvæða og þurfti því nauðsynlega á Höcke að halda, sem stökk fús um borð – enda fyrsta tækifærið sem þjóðernispopúlíski flokkur hans hefur fengið til að kjósa sambandslandsforseta í Þýskalandi. AFP

Í gær sagði Kemmerich af sér sem sambandslandsforseti, sem þýðir að gengið verði aftur til kosninga í Thüringen. Aðdragandinn að þessu var sá að frá sambandslandskosningum í vetur hefur reynst Bodo Ramelow úr Sósíalistaflokknum (Die Linke) ómögulegt að mynda stjórn, enda reru hægrimenn að því öllum árum að svo yrði ekki. Niðurstaðan varð þessi, að AfD náði að velja sinn mann, Kemmerich, sem sjálfur hafði rétt náð inn í kosningunni með 2,5%, á meðan AfD voru sjálfir með 23,4%. Ramelow sósíalisti hefur verið sambandslandsforseti í Thüringen frá því 2014 við ánægju meirihluta íbúa en nú var ráðgert að steypa honum af stóli – CDU og FDP neituðu að vinna með honum, og samstarf með SPD hefði ekki dugað.

Til marks um á hvaða stig orðræðan er komin notaði Ramelow myndina hér að neðan til að gagnrýna andstæðinga sína og ítreka hve lágt þeir legðust með því að mynda þessa stjórn: „Berið höfuðið hátt – ekki hendurnar,“ segir hann – og skírskotar þar með til óþægilegra hugrenningatengsla við nasisma Hitlers sem framferði Björn Höcke og hans manna vekja upp.

Úr eignastýringu í að vera kanslaraefni?

Kramp-Karrenbauer, sem nú segir af sér, hefur ekki siglt lygnan sjó frá því hún var naumlega kjörin formaður flokksins undir lok 2018. Mikil átök hafa verið innan ríkisstjórnarsamstarfsins með Sósíaldemókrötum (SPD) ásamt því sem CDU hefur sjaldan átt eins löku fylgi að fagna í sambandslandskosningum víða um landið. Atburðarásin með fasistunum í Thüringen rak síðan má segja síðasta naglann í kistu formennsku hennar og fara nú nýir tímar í hönd. 

Flokkurinn er í meiri háttar krísu, hefur tapað miklu fylgi meðal annars til AfD og þarf að fóta sig í nýju umhverfi. Flestir líta nú til Friedrich Merz, fyrrverandi þingflokksformanns CDU, þegar menn spyrja sig hver taki við formennskunni. Hann var næstur inn á eftir Kramp-Karrenbauer í kjörinu í desember 2018 en hann er síður en svo óumdeildur, hefur undanfarið verið stjórnarformaður Blackrock í Þýskalandi, stærsta eignastýringaraðila heims, en sagði af sér sem slíkur beint í kjölfar hins umdeilda kjörs Kemmerich. Margir túlkuðu það svo að nú hugsaði hann sér gott til glóðarinnar. 

Kramp-Karrenbauer verður áfram varnarmálaráðherra að ósk Merkel kanslara og að líkindum fer val á nýjum formanni fram fyrst í sumar. Þingkosningar eru veturinn 2021, þannig að nægur tími er til stefnu. Aðrir sem koma til greina sem formenn, svo einhverjir séu nefndir, eru Armin Laschet, sambandslandsforseti í Nordrhein-Westfalen, Markus Söder, sambandslandsforseti Bæjaralands (sem tók einarða afstöðu umsvifalaust gegn kjöri Kammerich í síðustu viku), og jafnvel Jens Spahn núverandi heilbrigðisráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert