Játaði fádæma dólgshátt í Íslandsflugi

Vélin var á leið frá Manchester til Keflavíkur þegar maðurinn …
Vélin var á leið frá Manchester til Keflavíkur þegar maðurinn byrjaði með dólgslætin. AFP

Breskur flugdólgur á fimmtugsaldri á mögulega yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir hegðun sína í flugi EasyJet frá Manchester til Keflavíkur í lok janúar í fyrra. Fluginu var snúið til Edinborgar í Skotlandi vegna hegðunar mannsins og í dag kom maðurinn þar fyrir dómara og játaði athæfi sitt.

Maðurinn, sem heitir Matthew Flaherty, hótaði bæði farþegum og flugþjónum vélarinnar og er sagður hafa gert tilraun til þess að borða iPhone-snjallsíma sem hann hafði meðferðis. Daily Mail segir frá því sem fram fór í réttarsalnum í dag og hefur eftir fulltrúa ákæruvaldsins:

„Sá ákærði tók símann sinn fram og byrjaði að brjóta hann með berum höndum og skar sig í leiðinni. Hann sást setja hluta símans upp í munninn á sér og tyggja þá. Batteríið lenti í sætinu og byrjaði að hitna og brenna hægt án loga í kjölfarið,“ en í fyrri frétt mbl.is af þessu máli kom fram að maðurinn hefði verið að reykja rafsígarettu um borð. Miðað við þessa frásögn stafaði reykurinn þó ekki frá rafsígarettu heldur frá sundurtættum snjallsíma mannsins.

Flugþjónar brugðust skjótt við og settu batteríið ofan í kalt vatn í kjölfarið. Flugvélinni var svo flogið áleiðis til Edinborgar þar sem Flaherty var handtekinn og borinn út úr vélinni. Er hann kom á lögreglustöð er hann sagður hafa ráðist að lögregluþjóni og hótað að drepa fjölskyldu hans, en honum var einnig gefið að sök að hafa verið með kynþáttafordóma.

Drakk ofan í sterk verkjalyf

Lögmaður Flaherty sagði að skjólstæðingur sinn væri „skelfingu lostinn“ yfir hegðun sinni og framkomu þennan dag og myndi lítið eftir því sem hann væri sakaður um, sökum þess að hann blandaði áfengisdrykkju við inntöku sterkra verkjalyfja sem hann var á vegna klemmdrar taugar.

Brot mannsins er litið afar alvarlegum augum af lögregluyfirvöldum í Edinborg og var honum tjáð í dag að búa sig undir að þurfa að sitja í varðhaldi vegna brota sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert