Engar nýjar Boeing-vélar pantaðar í janúar

Spurn eftir nýjum Boeing-vélum hefur dregist gríðarlega mikið saman eftir …
Spurn eftir nýjum Boeing-vélum hefur dregist gríðarlega mikið saman eftir að MAX-vélarnar voru kyrrsettar á heimsvísu. AFP

Flugvélaframleiðandinn Boeing greindi frá því í dag að engar nýjar pantanir á flugvélum hefðu borist fyrirtækinu í janúar og dregið hefði úr afhendingum á nýjum vélum vegna kyrrsetningar 737 MAX-véla Boeing sem er í gildi um allan heim.

Til samanburðar voru 45 nýjar þotur pantaðar af flugvélarisanum í janúar á síðasta ári. Þá voru einungis þrettán nýjar þotur afhentar í janúar í ár miðað við 46 afhendingar í janúar á síðasta ári.

Ársuppgjör Boeing var neikvætt á síðasta ári og var það í fyrsta skipti í meira en tvo áratugi sem tap var í rekstri fyrirtækisins. Hlutabréf fyrirtækisins hafa fallið mikið síðan tvö flugslys sem kostuðu 346 manns lífið urðu til þess að MAX-vélarnar voru kyrrsettar á heimsvísu.

Boeing vonast til að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum aflétti kyrrsetningu MAX-vélanna í júní eða júlí á þessu ári. Steve Dickson, yfirmaður bandarísku flugmálastofnunarinnar (FAA), sagði að það styttist í að stofnunin heimili svokallað vottunarflug, til að prófa MAX-vélarnar eftir endurhönnun á ákveðnum göllum, en það væru „nokkur vandamál enn óleyst“ og FAA biði eftir tillögum frá Boeing um lausn á þeim vandamálum.

mbl.is