Kórónuveiran gæti smitað 60% mannkyns

Gabriel Leung er forseti lýðheilsusviðs Hong Kong-háskóla.
Gabriel Leung er forseti lýðheilsusviðs Hong Kong-háskóla. AFP

Tveir þriðju allra íbúa heimsins gætu smitast af kórónuveirunni, sé henni ekki haldið í skefjum. Þetta segir einn helsti sérfræðingur Hong Kong í sóttvarnalækningum.

Gabriel Leung er forseti lýðheilsusviðs Hong Kong-háskóla, en hann varaði við þessu skömmu eftir að yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO sagði kórónuveruna mjög alvarlega ógn og að staðfest tilfelli smita sem greinst hafi hjá fólki sem aldrei hefur ferðast til Kína gætu reynst vera aðeins toppurinn á ísjakanum.

Segir Leung það forgangsmál að átta sig á stærð og lögun ísjakans, en flestir sérfræðingar telja að hver sá sem smitast af kórónuveirunni smiti u.þ.b. 2,5 aðra. Það gæti þýtt að allt að 60 til 80% mannkyns smitist af veirunni.

Fleiri lönd skoði að innleiða aðgerðir Kínverja gegn kórónuveirunni

„60% íbúa heimsins er voðalega há tala,“ sagði Leung í viðtali við Guardian. Jafnvel þó að aðeins 1% smitaðra láti lífið af völdum veirunnar yrði mannfallið gríðarlegt.

Leung tekur þátt í ráðstefnu WHO í Geneva í dag, þar sem á fimmta hundrað vísindamanna koma saman til að ræða ógnina sem stafar af kórónuveirunni, en þar mun hann leggja áherslu á að kannað verði hvort aðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn veirunni hafi skilað sínu. Sé svo skuli fleiri lönd skoða að innleiða aðgerðirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina