Kórónuveiran heitir núna Covid-19

Maður hjólar um í rigningu í Sjanghæ með andlitsgrímu fyrir …
Maður hjólar um í rigningu í Sjanghæ með andlitsgrímu fyrir vitum sér. AFP

Kórónuveiran skæða sem á rætur sínar að rekja til Kína hefur fengið nafnið Covid-19.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, greindi frá þessu á blaðamannfundi í Genf í dag. „Co“ stendur fyrir „kórónu“ og „vi“ fyrir „veiru“ og „d“ fyrir „disease“ [sjúkdóm].

Nafnið var valið til að koma í veg fyrir að vísað væri í tiltekið landsvæði, dýrategund eða hóp af fólki í tengslum við veiruna.

Stofnunin hafði áður gefið veirunni bráðabirgðanafnið 2019-nCoV-öndunarfærasjúkdómurinn. Heilbrigðisyfirvöld í Kína sögðust fyrr í þessari viku ætla að kalla veiruna „nýju lungnabólgu-kórónuveiruna“ eða NCP.

Læknirinn Paul McKay vinnur að bóluefni fyrir Covid-19.
Læknirinn Paul McKay vinnur að bóluefni fyrir Covid-19. AFP

Yfir eitt þúsund látnir

Yfir eitt þúsund manns eru látnir í Kína af völdum Covid-19 og segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin faraldurinn vera „mjög alvarlega“ alþjóðaógn.

Rúmlega 42 þúsund manns hafa smitast í 25 löndum.

Greint var frá 108 dauðsföllum til viðbótar í dag vegna veirunnar, sem fyrst greindist 31. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert