Bloomberg: „Allir glæpirnir“ í hverfum minnihlutahópa

Michael Bloomberg sér eftir að hafa sagt að ástæða þess …
Michael Bloomberg sér eftir að hafa sagt að ástæða þess að flestar löggur New York-borgar væru sendar í hverfi minnihlutahópa væri að „þar gerast allir glæpirnir“. AFP

Michael Bloomberg, sem freistar þess að verða frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í nóvember, sagði fyrir fimm árum að lögreglan ætti að einblína á hverfi minnihlutahópa því „þar mætti finna alla glæpina“.

Þetta kemur fram í hljóðupptöku frá árinu 2015, en Bloomberg var borgarstjóri í New York 2002-2013 og var því ekki starfandi borgarstjóri þegar hann lét ummælin falla. 

„Við setjum allar löggurnar í hverfi minnihlutahópa. Já, það er satt. Af hverju gerum við það? Af því að þar eru allir glæpirnir,“ heyrist Bloomberg meðal annars segja á upptökunni. 

Starfsmenn kosningaherferðar Bloomberg hafa beðið fjölmiðla að gera sér ekki mat úr því sem fram kemur á upptökunni. Benjamin Dixon, umsjónarmaður hlaðvarpsþáttar, birti upptökuna á Twitter í gær undir myllumerkinu #BloombergIsARacist eða #BloombergErRasisti.

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem lítur á Bloomberg sem sinn helsta verðandi keppinaut, nýtti tækifærið og skrifaði á Twitter, í hástöfum að sjálfsögðu: „VÁ, BLOOMBERG ER ALGJÖR RASISTI!“ Síðar eyddi hann færslunni. 

Færslan sem Donald Trump Bandaríkjaforseti eyddi síðar.
Færslan sem Donald Trump Bandaríkjaforseti eyddi síðar. Skjáskot/Twitter

Forsetanum var þá góðlátlega bent á að hann hafi sjálfur talað fyrir þeirri löggæslustefnu New York-borgar sem Bloomberg innleiddi á sínum tíma sem heimilar lögreglu að leita á borgurum á götum úti telji hún ástæðu til (e. stop-and-frisk). Þá var Trump bent á að hann hafi sjálfur verið sakaður um kynþáttafordóma.

Bloomberg hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna upptökunnar þar sem hann biðst afsökunar á ummælunum. „Ég sé eftir þessu og biðst afsökunar - og ég hef tekið ábyrgð á því að hafa verið of lengi að skilja þau áhrif sem löggæslustefna mín hafði á samfélög svarta og þeirra sem eru af rómönsku bergi brotin.“ 

Erfitt er að segja til um möguleika Bloomberg í forvali Demókrataflokksins þar sem hann  hefur enn ekki tekið þátt í forvali flokksins þar sem hann kaus að gefa ekki kost á sér í Iowa og New Hampshire. 

Samkvæmt skoðanakönnun Quinnipiac háskóla um fylgi frambjóðenda demókrata í forvali flokksins á landsvísu er Bloomberg með mestan stuðning á eftir Bernie Sanders og Joe Biden. Bloomberg mælist með 15% fylgu, Biden 17% og Sanders 25%. Ellefu frambjóðendur sækjast eftir að verða forsetaefni flokksins.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert