„Hvað er sannarlega skandinavískt?“

Flugfélagið hefur verið sakað um að gera lítið úr sögu …
Flugfélagið hefur verið sakað um að gera lítið úr sögu og einkennum Skandinavíu, en í upphafi auglýsingarinnar er spurt „Hvað er sannarlega skandinavískt?“ og spurningunni síðan svarað: „Alls ekki neitt – allt er eftirlíking.“ Skjáskot úr auglýsingu SAS

Skandinavíska flugfélagið SAS fjarlægði í dag auglýsingu af samfélagsmiðlarásum sínum eftir að hafa fengið á sig harða gagnrýni, meðal annars frá dönskum og sænskum stjórnmálamönnum úr flokkum sem tala fyrir þjóðernishyggju.

Flugfélagið hefur verið sakað um að gera lítið úr sögu og einkennum Skandinavíu, en í upphafi auglýsingarinnar er spurt „Hvað er sannarlega skandinavískt?“ og spurningunni síðan svarað: „Alls ekki neitt – allt er eftirlíking.“

Síðan er fjölmargt nefnt til sögunnar, til dæmis lýðræði (sem Grikkjum er þakkað), fæðingarorlof (sem Svisslendingum er þakkað), reiðhjól (sem eru þýsk uppfinning), rúgbrauð (sem er tyrkneskt í grunninn) og lakkrís (sem má rekja til Kína upphaflega). Svo er á það minnst að sænskar kjötbollur séu í raun ef til vill minna sænskar en margir halda – heldur frekar tyrkneskar.


Boðskapur auglýsingarinnar virðist vera sá að hlutirnir sem margir hugsa um sem sérstaklega „skandinavíska“ hafi í raun verið fluttir til Skandinavíu frá öðrum heimshlutum smám saman í gegnum aldirnar — og að hvenær sem Skandinavar ferðist taki þeir hluta af því besta með sér aftur heim.

„Á einn eða annan hátt var komið með Skandinavíu hingað, bita fyrir bita, af venjulegu fólki sem fann það besta við heimili okkar, er það var að heiman,“ segir þulur í auglýsingunni og bætir við að flugfélagið geti ekki beðið eftir að sjá „hvaða yndislegu hluti þú kemur heim með næst“.

Stjórnmálamenn ætla að sniðganga SAS

Þetta hefur farið öfugt í marga. „Hvílík vitleysa og sjálfshatur. Hef alltaf reynt að fljúga með SAS, en aldrei aftur. Það er loforð,“ skrifar ritari Svíþjóðardemókrata, Richard Jomshof, á Facebook.

Í sama streng tók Søren Espersen, þingmaður Danska þjóðarflokksins, í samtali við Ekstra Bladet. „Ég hef alltaf flogið með SAS en ég fengi óbragð í munninn ef ég gerði það aftur af því þeir hrækja svona á okkur,“ sagði Espersen.

SAS hefur gefið það út að auglýsingin hafi verið fjarlægð tímabundið af rásum þess, en flugfélagið segir að ástæðan fyrir því séu öfgafull viðbrögð ákveðinna hópa netverja, sem hafi „stolið auglýsingaherferðinni“ og farið að tengja hana við hluti og viðhorf sem þeim þóttu ekki æskileg, samkvæmt frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert