Auglýsingastofu hótað vegna auglýsingar SAS

Umdeild auglýsing SAS vakti reiði sárra Skandinava. Sprengjuhótun í garð …
Umdeild auglýsing SAS vakti reiði sárra Skandinava. Sprengjuhótun í garð danskrar auglýsingastofu er nú rannsökuð. AFP

Auglýsingastofa sem annaðist gerð umdeildrar auglýsingar fyrir skandinavíska flugfélagið SAS fékk í morgun sprengjuhótun og lokaði lögregla Adelgade í miðborg Kaupmannahafnar, þar sem auglýsingastofan er til húsa.

Danska ríkisútvarpið DR greinir frá þessu og í frétt þess mátti sjá sprengjusérfræðinga danska hersins athafna sig nærri höfuðstöðvum auglýsingastofunnar, sem heitir & Co., í morgun. Þeir fundu enga sprengju.

Fólk í nágrenninu var beðið um að halda sig innandyra, en við Adelgade stendur einnig gistiheimili og voru gestir þess beðnir um að yfirgefa svefnstað sinn og stóðu margir úti á götu á náttfötunum á meðan sprengjusérfræðingar leituðu af sér allan grun, samkvæmt fréttamanni DR á vettvangi.

& Co. auglýsingastofan er til húsa í miðborg Kaupmannahafnar, skammt …
& Co. auglýsingastofan er til húsa í miðborg Kaupmannahafnar, skammt frá Kongens Have. Kort/Google

Reiðialda vegna auglýsingar sem & Co. framleiddi

Tæp­lega þriggja mín­útna löng aug­lýs­ing SAS vakti slík­an úlfaþyt á sam­fé­lags­miðlum að fé­lagið tók hana úr birt­ingu og út­bjó í snar­hasti aðra, 43 sek­úndna langa, eft­ir að hafa sent út frétta­til­kynn­ingu þar sem sýn SAS á málið var út­skýrð um leið og fé­lagið harmaði það sem það vill meina að sé skipu­lögð árás net­verja. Stjórnmálamenn hafa einnig móðgast yfir auglýsingunni og hafa nokkrir úr flokkum á borð við Svíþjóðardemókrata og Danska þjóðarflokkinn lýst því yfir að þeir ætli aldrei aftur að fljúga með SAS.

Það sem olli þess­ari miklu reiði, og virðist nú hafa leitt til þess að lögð var fram hótun gegn auglýsingastofunni, var spurn­ing sem kastað var fram í aug­lýs­ing­unni, um hvað væri mest ein­kenn­andi fyr­ir Skandi­nav­íu, siði þar og menn­ingu. Eru svo ýmis atriði og fyr­ir­bæri sýnd í mynd­skeiðinu og tal­in upp; reiðhjól, sænsk­ar kjöt­boll­ur, húðflúr af seglskútu, fæðing­ar­or­lof, smur­brauð, vind­myll­ur og bréfa­klemm­ur. Og reynd­ar fleira.

Svarið, sem lík­lega var reiknað með að fengi áhorf­end­ur að minnsta kosti til að brosa út í annað, kom hins veg­ar ræki­lega við kaun­in á stolt­um íbú­um Skandi­nav­íu­skag­ans: Ekk­ert af þessu! Þetta er allt stolið, svara þulir aug­lýs­ing­ar­inn­ar sem eru nokkr­ir. Bit­ur sann­leik­ur­inn er svo dreg­inn fram í dags­ljósið (mbl.is tek­ur enga ábyrgð á eft­ir­far­andi sagn­fræði):

Reiðhjól eru upp­haf­lega þýsk, vind­myll­ur eru upp­finn­ing Persa, rúg­brauð er tyrk­neskt, sænsku kjöt­boll­urn­ar eru ekki sænsk­ari en svo að þær eru líka tyrk­nesk­ar, smur­brauðið danska er í raun hol­lenskt að upp­runa og bréfa­klemm­ur am­er­ísk­ar. Upp­runi seglskútu­húðflúrs­ins virðist þó verða út und­an í upp­runa­skýr­ing­un­um.


Vert er að geta þess til gam­ans að Norðmenn trúðu því reynd­ar ára­tug­um sam­an að hinn norski Joh­an Va­al­er hefði fundið bréfa­klemm­una upp árið 1899 og gaf bréfa­klemmu­fram­leiðand­inn Mu­stad fabrikk­er minn­is­merki, helj­ar­stóra bréfa­klemmu, árið 1989, á 90 ára af­mæli þessa skemmti­lega mis­skiln­ings, og stend­ur það í Sand­vika í Bær­um, rétt utan við Ósló.

Minnismerki um misskilning. Johan Vaaler fann ekki upp bréfaklemmuna árið …
Minnismerki um misskilning. Johan Vaaler fann ekki upp bréfaklemmuna árið 1899, en lengi var það þó haft fyrir satt í Noregi. Ljósmynd/Store norske leksikon

Rétt var það hins veg­ar að Va­al­er þessi sótti um einka­leyfi fyr­ir ein­hvers kon­ar víra­virki sem átti að halda sam­an papp­ír­um en þegar upp var staðið fór upp­finn­ing hans aldrei í fram­leiðslu.

John Eckhoff, upp­lýs­inga­full­trúi SAS, sagði við norska rík­is­út­varpið NRK í gær að sam­fé­lags­miðlaholskefl­an hefði verið sam­hæfð netárás á fyr­ir­tækið og SAS stæði við allt sem fram kæmi í aug­lýs­ing­unni, þrátt fyr­ir að fyr­ir­tækið hefði tekið hana úr birt­ingu og búið til aðra styttri.

DR

NRK

NRKII (SAS tek­ur aug­lýs­ing­una úr birt­ingu)

Frétta­til­kynn­ing SAS

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að ljóst varð að engin sprengja fannst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert