Heimilisofbeldi snertir alla

Camilla, hertogaynja af Cornwall.
Camilla, hertogaynja af Cornwall. AFP

Hertogaynjan af Cornwall segir að heimilisofbeldi snerti alla og hvetur fólk til að tjá sig um reynslu sína. „Enginn veit hvað á sér stað innan veggja heimilisins. Það skiptir ekki máli hver þú ert,“ segir Camilla í viðtali við Daily Mail. 

BBC, sem vísar í Daily Mail, segir að viðtalið hafi verið tekið í kjölfar viðburðar hjá góðgerðarsamtökunum SafeLives í London í gær en Camilla flutti þar erindi. Hún talaði um feluleikinn varðandi heimilisofbeldi og í hvert skipti sem einhver greini frá dragi úr feluleiknum. 

Að hennar sögn fékk hún martraðir eftir að hafa heyrt sögur kvenna um misnotkun sem þær höfðu orðið fyrir á viðburði hjá samtökunum fyrir fjórum árum. 

„Ég naut þeirra forréttina að heyra frá ótrúlega hugrökkum konum sem stóðu upp og sögðu sögu sína. Átakanlegar sögur sem létu mörg okkar, sem hlýddum á, tárfella,“ segir Camilla í ræðunni sem hún flutti í gær.

Camilla segir þennan minnisstæða dag hafa orðið til þess að hún hafi fengið mikinn áhuga á heimilisofbeldi. Hún hafi vitað um fólk sem hafi þjáðst vegna þess en það hafi verið áfall að heyra hversu margir í heiminum neyðist til þess að búa við það. 

SafeLives veitir fólki sem hefur orðið fyrir heimilisofbeldi aðstoð en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Bretlands hafa um 4,2% karla og 7,9% kvenna orðið fyrir slíku ofbeldi. Það svarar til 685 þúsund karla og 1,3 milljóna kvenna. Í hverri viku eru tvær konur myrtar í Bretlandi í tengslum við slíkt ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert