Hicks snýr aftur í Hvíta húsið

Hope Hicks.
Hope Hicks. AFP

Hope Hicks, fyrrverandi samskiptastjóri Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem sagði upp fyrir tæpum tveimur árum, mun snúa aftur í Hvíta húsið vegna komandi forsetakosninga.

Hún mun sinna ráðgjafastörfum bæði fyrir forsetann og á skrifstofu Jared Kushner, ráðgjafa Hvíta hússins og tengdasonar Trump.

Hicks, sem er 31 árs, tók þátt í kosningaherferð Trump á sínum tíma og var síðar ráðin samskiptastjóri. Hún sýndi hollustu sína við forsetann í verki og gagnrýndi hann aldrei opinberlega.

Hún sagði upp 1. mars 2018, degi eftir að hún sat fyrir svörum á Bandaríkjaþingi vegna rannsóknar á afskiptum Rússa vegna forsetakosninganna 2016.

Eftir að Hicks yfirgaf Hvíta húsið gekk hún til liðs við Fox Group, sem hefur umsjón með fréttastöðinni Fox News.

mbl.is