Mikil fjölgun dauðsfalla af völdum COVID-19

Kínversk yfirvöld hafa greint frá 242 nýjum dauðsföllum af völdum COVID-19-veirunnar og hafa tilkynnt dauðsföll aldrei verið jafn mörg á einum sólarhring. Jafnframt fjölgaði smitum um 14.840 og þýðir það að 1.350 eru látnir og tæplega 60 þúsund smitaðir.

Ástæðan fyrir mikilli fjölgun tilvika eru breyttar aðferðir við talningu á smituðum og vekur þetta upp grun um að staðan sé mun verri en áður hefur verið haldið fram opinberlega. 

Jafnframt hafa tveir háttsettir stjórnmálamenn sem höfðu eftirlit með upptökum kórónuveirunnar verið reknir. Þetta hefur einnig vakið upp spurningar um hvernig kínversk yfirvöld takast á við hættuástandið. Tilkynnt var um brottreksturinn nokkrum klukkutímum eftir að forseti Kína, Xi Jinping, greindi frá jákvæðum niðurstöðum í baráttunni við farsóttina. 

AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir enn of fljótt að segja til um hvort hátindinum sé náð eða náist á næstu vikum líkt og kínversk yfirvöld hafa haldið fram.

COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif á heimsbyggðina allt frá því sjúkdómurinn kom upp í Hubei-héraði um áramótin. Mörg ríki hafa bannað ferðamönnum frá Kína að koma til landanna í þeirri von að hægt verði að stöðva faraldurinn. Í Hubei, þar sem tugmilljónir eru lokaðar inni, voru 242 ný dauðsföll tilkynnt í gær. Þar voru einnig öll ný smit sem tilkynnt voru í gær. Yfirvöld í Hubei segja að fjölgun nýrra smita á milli daga skýrist af því að nú eru þeir taldir með sem eru greindir formlega með lungnamyndatöku. Hingað til hafa aðeins þeir verið skráðir með kórónuveiruna sem hefðu farið í gegnum sýnatöku á rannsóknarstofu. 

Íbúar í Hubei og höfuðstað héraðsins, alls 56 milljónir íbúa, eru í sóttkví og mega ekki yfirgefa héraðið. Tugir milljóna til viðbótar í öðrum borgum eru einnig í farbanni.

Fyrir utan Kína hafa flest smit greinst í Japan, það er um borð í skemmtiferðaskipi sem er í sóttkví fyrir utan Yokohama. Þar voru greind 44 ný smit af COVID-19 síðasta sólarhringinn sem þýðir að alls hafa 218 greinst smitaðir um borð í Diamond Princes.

AFP

Mörg flugfélög hafa aflýst flugi til og frá Kína og hefur meðal annars bandaríska flugfélagið United Airlines ákveðið að fljúga ekki til Kína fyrr en í fyrsta lagi í lok apríl 

Á Spáni hefur verið hætt við helstu snjallsímasýningu heims, World Mobile Congress, þar sem stórfyrirtæki eins og Nokia, Facebook og Vodafone ákváðu að hætta við þátttöku vegna COVID-19. Jafnframt hefur fjölmörgum íþróttaviðburðum verið aflýst og stærstu flugsýningu Asíu, Singapore Air Show, hefur ekki verið aflýst en nánast allir afboðað þátttöku. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert