Umturna verksmiðjum til að framleiða grímur

Andlitsgrímur eru eftirsóttasta varan á markaði núna.
Andlitsgrímur eru eftirsóttasta varan á markaði núna. AFP

Það er óhætt að segja að bleyjuframleiðandi í austurhluta Kína hafi brugðist skjótt við ákalli yfirvalda um að fleiri framleiddu andlitsgrímur til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19. Á aðeins tveimur dögum tókst New Yiafa Group að breyta verksmiðjunni sinni í Fujian-héraði úr bleyjuverksmiðju í verksmiðju sem framleiðir um 600 þúsund andlitsgrímur á dag. 

Aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, Shen Shengyuan, staðfesti þetta við AFP-fréttastofuna. „Já, starfsfólkið okkar býr til andlitsgrímur núna.“ Hann bætti þó við að fyrirtækið væri ekki hætt að framleiða bleyjur og til stæði að koma með nýja línu fljótlega.

Fleiri fyrirtæki víða um Kína hafa brugðist við kalli yfirvalda. iPhone-framleiðandinn Foxconn og bílaframleiðandinn BYD hafa til að mynda bætt andlitsgrímum við framleiðslu sína og fjöldi fataverksmiðja einnig.

Um 1.350 hafa nú látist úr kórónuveirunni og yfir 60 þúsund hafa smitast en smitum virðist fjölga hratt í Kína þessa dagana. Íbúar landsins hafa því verið að birgja sig upp af ýmsum vörum, þar á meðal andlitsgrímum og hefur borið á skorti á þeim. Yfirvöld segjast nauðsynlega þurfa fleiri grímur og biðla til fyrirtækja að auka framleiðslu sína eins mikið og þau geta til að anna eftirspurn.

mbl.is