Lík breskrar konu fannst á Nýja-Sjálandi

Nýsjálensk björgunarþyrla á flugi.
Nýsjálensk björgunarþyrla á flugi. AFP

Lögreglan á Nýja-Sjálandi hefur fundið lík breskrar konu sem leitað hafði verið að í nokkra daga.

Stephanie Simpson, 32 ára frá Essex, er talin hafa lagt af stað í fjallgöngu um síðustu helgi í þjóðgarðinum Mount Aspiring National Park á Nýja-Sjálandi, að sögn BBC.

Björgunarsveitarmenn fundu lík hennar klukkan 13.40 að staðartíma, eða klukkan 00.40 í nótt, á svæðinu Pyke Creek. Áður höfðu fundist hlutir sem þeir töldu að höfðu verið í hennar eigu.

Tilkynnt var um hvarf Simpson á mánudaginn, þegar leitin að henni hófst. Samkvæmt Facebook-síðu hennar hafði hún búið á Wanaka-svæðinu á Nýja-Sjálandi síðan í nóvember og starfað við garðyrkju.

Við leitina í gær var notast við þyrlur, dróna og hunda. Þegar leitin bar ekki árangur var leitarsvæðið stækkað og einbeittu menn sér að Pyke-svæðinu.

„Leitin var virkilega erfið á köflum, sérstaklega vegna svæðisins sem var um að ræða og það ber að þakka öllum þeim sem komu að leitinni,“ sagði varðstjórinn Mark Kirkwood.

mbl.is