Aðgerðasinni sem birti kynlífsmyndband handtekinn

Petr Pavlensky segist hafa verið að afhjúpa hræsnara.
Petr Pavlensky segist hafa verið að afhjúpa hræsnara. AFP

Rúss­nesk­i aðgerðasinninn Petr Pav­len­sky, sem hefur lýst yfir ábyrgð á birtingu kynlífsmyndbands af manni sem var í framboði til borgarstjóraembættis Parísarborgar, hefur verið handtekinn.

Myndskeiðið er af Benjam­in Gri­veaux, nánum bandamanni Emmanuel Macron Frakklandsforseta og sagt er vera af honum að stunda sjálfsfróun. Griveux dró framboð sitt til baka þegar myndbandið var birt.

Samkvæmt erlendum fjölmiðlum skiptust Griveux og ung kona á nánum skilaboðum en hann sendi henni umrætt myndskeið.

Franskt stjórnmálafólk hefur fordæmt birtingu myndskeiðsins og sagt að einkalíf fólks eigi að vera það.

Samkvæmt frétt AFP var Pavlensky ekki handtekinn í tengslum við myndskeiðið heldur vegna óeirða í París á gamlársdag.

mbl.is