Bill de Blasio á Bernie-vagninn

Bill de Blasio, borgarstjóri New York.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York. AFP

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, hefur lýst yfir stuðningi við öldungadeildarþingmanninn Bernie Sanders í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum. New York Times greinir frá.

Í yfirlýsingu sem kosningateymi Sanders sendi frá sér er haft eftir borgarstjóranum að hann styðji Sanders þar sem hann standi með vinnandi fjölskyldum og sé rétti frambjóðandinn til að takast á við Donald Trump. „Ég hef kallað eftir djörfum, framsæknum stefnumálum og það er nákvæmlega það sem Sanders hefur barist fyrir í áratugi.“

Stefnt er að því að de Blasio komi fram á kosningafundum Sanders í Nevada í dag og á morgun, en forval Demókrataflokksins fer fram í ríkinu næstkomandi laugardag.

Yfirlýsingin þykir óvænt í ljósi þess að de Blasio studdi Hillary Clinton, keppinaut Sanders, í baráttunni fyrir fjórum árum. Hann lét þó hafa eftir sér í sumar að eftir á að hyggja hefði Sanders sennilega unnið forsetakosningarnar 2016 gegn Donald Trump, hefði hann hlotið tilnefningu flokksins.

Bill de Blasio var sjálfur meðal þeirra sem sóttust eftir útnefningu Demókrataflokksins í kosningunum nú, en dró sig í hlé síðasta sumar eftir um fjögurra mánaða árangurslitla baráttu. Hann hafði þá aldrei mælst yfir einu prósenti í skoðanakönnunum.

mbl.is