Fyrsta dauðsfall af völdum kórónuveiru í Evrópu

Um 1.500 manns eru látnir af völdum veirunnar, allir nema …
Um 1.500 manns eru látnir af völdum veirunnar, allir nema fjórir á meginlandi Kína. AFP

Áttræður kínverskur maður, sem var á ferðalagi í Frakklandi, er látinn af völdum kórónuveirunnar, COVID-19. Er þetta fyrsta staðfesta dauðsfallið af völdum veirunnar utan Asíu. Þetta staðfesti Anes Byzyn, heilbrigðisráðherra Frakklands.

Um 65.000 tilfelli veirunnar hafa nú verið staðfest og er tala látinna komin yfir 1.500. Af þeim hafa aðeins fjögur verið utan meginlands Kína, á Filippseyjum, í Hong Kong og Japan, auk dauðsfallsins í Frakklandi. 

Um 1.700 kínverskir læknar hafa smitast af veirunni, en aðbúnaður á sjúkrahúsum er víða óviðunandi. Einn þeirra er Yu Yajie, læknir á sjúkrahúsi í borginni Wuhan, þar sem kórónuveiran á upptök sín. Í samtali við New York Times segir hann að læknar notist við tættar andlitsgrímur, þurfi reglulega að endurnýta gleraugu sem ætlað er að vera einnota og hylji skó sína með plastpokum þar sem sérhæfðari aðbúnaður sé ekki til staðar.

Tveir kínverskir bloggarar sem höfðu deilt tugum myndbanda frá Wuhan, þar sem þeir gagnrýndu viðbrögð kínverskra stjórnvalda hurfu sporlaust í síðustu viku og bætast þeir á langan lista fólks sem jörðin hefur gleypt eftir að það hefur gagnrýnt stjórnvöld þar í landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert