Gefur Albönum og N-Makedónum von

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segist reiðubúinn að gefa grænt ljós á að Evrópusambandið hefji aðildarviðræður við N-Makedóna og Albana að því gefnu að væntanleg skýrsla staðfesti nægilegan árangur af umbótum í ríkjunum tveimur. Þetta kom fram í ræðu hans á Öryggisráðstefnunni í München.

Balkanríkin tvö hafa bæði sótt um aðild að Evrópusambandinu og NATO, en í nóvember í fyrra kaus Macron gegn því að viðræður skyldu hafnar. Sérhvert ríki ESB hefur neitunarvald gegn inngöngu nýrra ríkja og því nægði atkvæði Macron til að fresta enn um sinn aðildarviðræðunum.

Á ráðstefnunni í dag hafnaði Macron því þó að hafa verið sá eini sem ekki vildi hefja viðræður. „Þó nokkur ríki voru á móti því að hefja viðræður við Norður-Makedóníu og Albaníu,“ sagði Macron. Forsetinn franski hefur látið hafa eftir sér að hann vilji grundvallarendurskoðun á inngönguferlinu í sambandið, þar sem það einkennist af „of mikilli skriffinnsku og tæknileika“.

Vonbiðlar í áraraðir

Alban­ía sótti um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu 28. apríl 2008, þrem­ur mánuðum á und­an Íslandi, en Evr­ópu­sam­bandið hef­ur síðan þá sett marga fyr­ir­vara við að viðræður geti haf­ist. Einkum má nefna aðgerðir á fimm sviðum, sem stækk­un­ar­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins, Johann­es Hahn, út­listaði í bréfi til albanskra stjórn­valda í mars 2015: um­bæt­ur á op­in­berri stjórn­sýslu, rétt­ar­rík­inu og grund­vall­ar­rétt­indi þegna auk aðgerða til að taka á spill­ingu og skipu­lagðri glæp­a­starf­semi.

Al­bönsk stjórn­völd hafa tekið mark­viss skref til að geðjast Evr­ópu­ríkj­un­um. Má þar nefna stjórn­ar­skrár­breyt­ingu árið 2016 þar sem skip­an dóm­ara er sett í hend­ur óháðrar dóm­nefnd­ar er­lendra fræðimanna, með það að mark­miði að tryggja póli­tískt hlut­leysi þeirra. Þá verður skip­an þeirra að hljóta stuðning auk­ins meiri­hluta, 2/​3 hluta þing­manna.

Fram­kvæmda­stjórn ESB lagði til í nóv­em­ber 2016 að aðild­ar­viðræður skyldu hafn­ar en stjórn­völd í Þýskalandi til­kynntu þá að þau legðust gegn aðild­ar­viðræðum þangað til 2018.

Þegar eru þrjú ríki í aðild­ar­viðræðum við ESB, Svart­fjalla­land, Serbía og Tyrk­land, en hið síðast­nefnda hef­ur átt í viðræðum frá ár­inu 1978 og eru þær í raun frosn­ar.

Norður-Makedón­ía sótti um aðild að ESB árið 2005. Hindr­an­ir í vegi aðild­ar­viðræðna hafa að mörgu leyti verið svipaðar og hjá Al­bön­um. Stærsta hindr­un­in var nafnadeila Grikklands og ríkisins, sem nefndist Makedónía. Beittu grísk stjórnvöld neitunarvaldi sínu gegn inngöngu ríkisins allt þar til samkomulag náðist árið 2018 og ríkið fékk nafnið Norður-Makedónía.

mbl.is