Leyndi risvandamálinu í 13 ár

Kristín Haraldsdóttir ásamt Jason Rogers.
Kristín Haraldsdóttir ásamt Jason Rogers.

Dr. Kristín Haraldsdóttir gerði í fyrra tíu hlaðvarpsþætti um líf og sjálfsmynd íþróttafólks í Bandaríkjunum eftir að það hættir keppni og á þessu ári munu sextán þættir bætast við. Hún segir viðtökur góðar enda tengi margir við efnið. 

Í næsta þætti seríunnar ræðir Kristín við skylmingakappann Jason Rogers, sem vann meðal annars silfur á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. „Jason er mjög myndarlegur maður og varð snemma á ferlinum kyntákn sem fólk var sannfært um að gæti allt. Hann var hreystin holdi klædd. Ekki var þó allt sem sýndist; Jason rogaðist í þrettán ár með leyndarmál. Hann átti við risvandamál að stríða og gat ekki verið með konum. Það er mjög erfitt fyrir karla í íþróttum að sýna að þeir séu ekki fullkomnir en á endanum rauf Jason þögnina og nú er hann að skrifa bók um reynslu sína.“

Önnur íþróttakona sem Kristín ræðir við í seríunni er Briana Scurry, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Bandaríkjanna í knattspyrnu, en hún varð meðal annars heimsmeistari með liðinu árið 1999. „Það var árið sem kvennafótboltinn sló í gegn hérna í Bandaríkjunum og stelpurnar í liðinu nutu mikillar lýðhylli.“

Árið 2010 fékk Scurry heilahristing í leik og varð í framhaldinu að leggja skóna og hanskana á hilluna. „Það var mikið áfall fyrir hana. Allt í einu var hún ekki lengur þessi fræga fótboltakona; það gleymdu henni allir á einum degi. Briana var 39 ára á þessum tíma og hafði ekki hugmynd um hver hún var,“ segir Kristín. Ekki bætti úr skák að Scurry þjáðist af miklum höfuðverkjum og átti erfitt með að einbeita sér og jafnvel setja saman setningar eftir höfuðhöggið, sem var mjög alvarlegt. „Þetta gekk svo langt að hún íhugaði að fyrirfara sér,“ segir Kristín.

Kristín við gerð hlaðvarpsþátta sinna.
Kristín við gerð hlaðvarpsþátta sinna.


Kristín er fljót til svars þegar spurt er hvort hún hafi áhuga á að vinna sambærilega þætti á Íslandi. „Hvort ég hef. Mig dauðlangar að vinna á Íslandi og veit um marga áhugaverða viðmælendur þar. Ég nefni sem dæmi Eika Helgason brettamann og crossfit-stelpurnar okkar. Vonandi getur orðið af því í náinni framtíð.“

Þeir sem vilja kynna sér málið betur geta haft samband við Kristínu á netfangið: haraldsdottir.kristin@gmail.com.

Nánar er rætt við Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »