„Milljón ferðamenn heimsækja heimili mitt árlega“

Ana Viladomiu hefur búið í Le Pedrera, sögufrægu húsi sem …
Ana Viladomiu hefur búið í Le Pedrera, sögufrægu húsi sem hannað er af Antoni Gaudi, í 32 ár. Milljón ferðamenn heimsækja húsið árlega og sumir banka meira að segja upp á hjá Önu. AFP

Ferðamenn greiða 22 evrur, um 3.000 krónur, fyrir að skoða Le Pedrera, byggingu í Barcelona hannaða af spænsk-katalónska arkítektinum Antoni Gaudi. En ekki Ana Viladomiu. Hún gengur bara beint inn. Hún á nefnilega heima í sögufrægu byggingunni. 

„Milljón ferðamenn heimsækja heimili mitt árlega. Hvernig sem litið er á þetta bý ég við algjör forréttindi,“ segir Ana, sem flutti í íbúð í húsinu ásamt eiginmanni sínum á níunda áratugnum, skömmu eftir að byggingin komst á heimsminjaskrá Unesco, árið 1985. 

„Í fyrstu pirraði það mig að hafa svona marga ferðamenn á heimili mínu, sérstaklega við innganginn,“ segir Ana, og lýsir því hvernig hún þurfti stundum að olnboga sig í gegnum mannhafið með innkaupapoka og tvö lítil börn. 

Næði sem fylgir því að búa í húsinu er ekki mikið og dæmi eru um að ferðamenn banki á dyrnar hjá Önu. Hún segist samt sem áður finna fyrir miklu öryggi, sérstaklega þar sem öryggisverðir vakta húsið allan sólarhringinn. „Ef ég er að elda steik og það kemur aðeins meiri reykur en vanalega hringja þeir og athuga með mig.“

Ana hefur búið í húsinu í 32 ár, fyrst með eiginmanni og börnum en nú býr hún ein. Aðeins tveir aðrir íbúar eru í byggingunni en óvíst er hver framtíð Le Pedrera verður. Ana gæti verið einn af síðustu íbúunum. 

Í myndskeiðinu hér að neðan má heyra Önu lýsa áskorununum sem fylgja því að búa í húsinu: 

mbl.is