Prinsinn dvaldi hjá öðrum meintum nauðgara

Andrew Bretaprins hætti opinberum skyldustörfum vegna tengsla hans við kynferðisbrotamanninn …
Andrew Bretaprins hætti opinberum skyldustörfum vegna tengsla hans við kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein. AFP

Andrés Bretaprins, hertoginn af York, er sagður hafa dvalið með fjölskyldu sinni á setri milljónamærings sem er hátt setur í tískubransanum og er nú ásakaður um að hafa nauðgað tíu konum og stúlkum. Andrés á að hafa dvalið hjá milljónamæringnum árið 2000 ásamt fjölskyldu sinni. 

Maðurinn sem um ræðir heitir Peter Nygård og er hann finnsk-kanadískur tískumógúll og viðskiptamaður. Hann er nú ákærður fyrir fyrrnefnd brot og sagður hafa tælt „ungar heillandi konur og gjarnan fátækar konur og börn“ á setur sitt á Bahamaeyjum með loforðum um peningagreiðslur og fyrirsætutækifæri. Þegar hann hafði tælt þær á setur sitt er sagt að hann hafi ráðist á konurnar og stúlkurnar, nauðgað þeim og misnotað á annan hátt. 

Peter Nygård.
Peter Nygård. Wikimediacommons/Toglenn

Andrew á myndum með Nygård

Nygård er 78 ára en hann hefur oft hýst stjórnmálamenn og annað frægt fólk á setri sínu á Bahamaeyjum. Það er staðsett nálægt Nassau, höfuðborg Bahamaeyja. Andrés prins er á myndum af vefsíðu Nygård ásamt Söruh Ferguson, fyrrverandi eiginkonu sinni, og tveimur dætrum þeirra. 

Ein myndanna sýnir Andrés stuttbuxnaklæddann á göngu með Nygård. Á annarri mynd stillir Nygård sér upp ásamt Söruh og dætrum hennar, prinsessunum Eugenie og Beatrice.

Önnur tenging við meintan kynferðisbrotamann

Tenging Andrésar og Nygård er enn frekari niðurlæging fyrir prinsinn sem hefur látið af opinberum störfum í kjölfar þess að vinátta hans og kynferðisafbrotamannsins Jeffrey Epsteins var afhjúpuð. Hann lést í fangaklefa sínum í New York á síðasta ári en þar beið hann réttarhalda yfir sér vegna mansals. 

Sömuleiðis steig kona fram sem sagðist hafa verið þvinguð til að hafa kynmök við Andrés þegar hún var unglingsstúlka. Atvikið á að hafa átt sér stað á landareign Epsteins sem hún segir að hafi þvingað sig til að stunda kynmök með Andrési.

Andrés hefur ekki verið tengdur við nein kynferðisbrot á setri Nygård. 

mbl.is