Farið fram á dauðarefsingu

Satoshi Uematsu hefur játað glæpi sína og fara japanskir saksóknarar …
Satoshi Uematsu hefur játað glæpi sína og fara japanskir saksóknarar fram á dauðarefsingu vegna morðanna. AFP

Saksóknarar í Japan fara fram á að Satoshi Uematsu, þrítugur maður sem ákærður er fyrir að myrða 19 fatlaða íbúa á dvalarheimili þar sem hann starfaði árið 2016, verði tekinn af lífi fyrir glæpi sína. Um er að ræða versta fjöldamorð Japans allt frá dögum síðari heimsstyrjaldar.

Uematsu er ákærður fyrir að hafa stungið fólkið til bana á dvalarheimilinu, sem er í bænum Sagamihara, skammt suðaustan við Tókíó, höfuðborg landsins.

Hann hefur játað verknaðinn, en verjendur hans segja að hann sé saklaus og geti ekki verið ábyrgur gjörða sinna þar sem hann þjáist af geðsjúkdómi vegna kannabisneyslu.

Réttarhöldin standa nú yfir og segja saksóknarar að Uematsu ætti að hljóta dauðarefsingu, gjörðir hann hafi verið ómannúðlegar og fyrir þær þurfi Uematsu að fá harkalega refsingu, en fyrir utan þá 19 sem létust í árás hans særðust 26 til viðbótar.

Frá réttarhöldunum, sem fram fara í Yokohama.
Frá réttarhöldunum, sem fram fara í Yokohama. AFP

Eftir að Uematsu var handtekinn bárust fréttir af því að hann hefði tjáð lögreglu að hann teldi sig hafa bjargað fórnarlömbum sínum frá því að lifa með fötlun. Hann er sagður hafa lýst því yfir að hann vildi útrýma öllu fötluðu fólki og vöktu gjörðir hans mikla reiði í Japan og víðar, en skömmu áður en hann lét til skarar skríða hafði hann verið skikkaður inn á geðspítala fyrir að hafa viðrað þær skoðanir sínar.

Búist er við að dómur í málinu verði kveðinn upp 16. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert