Fjórar nýjar F-35-orrustuþotur til Íslands

Ein nýju F35A-véla norska flughersins sem verða 52 þegar Lockheed …
Ein nýju F35A-véla norska flughersins sem verða 52 þegar Lockheed Martin-verksmiðjurnar hafa afhent þær síðustu árið 2024. Fjórar þeirra eru væntanlegar í loftrýmiseftirlit til Íslands í mars ásamt 150 manna liði norska flughersins. Ljósmynd/Torbjørn Kjosvold/Norski flugherinn

Fjórar nýjar F-35-orrustuþotur norska flughersins frá 332. flugsveitinni við Ørland-flugherstöðina eru væntanlegar til Íslands í loftrýmisgæslu um leið og þær hafa hlotið vottun frá NATÓ sem gert er ráð fyrir að verði um mánaðamótin.

Fimmtán nýjar F-35A-þotur hafa komið til Noregs í af­hend­ing­ar­holl­um frá verk­smiðjum Lockheed Mart­in í Texas frá haust­inu 2017 og munu nýju þoturnar taka við af F-16-flota norska flughersins sem vægast sagt er kominn til ára sinna en allar F-16-þoturnar utan tvær eru tæplega 40 ára gamlar. F-16-vélarnar munu þó áfram sinna svokallaðri QRA-vakt (e. quick reaction alert) frá flugherstöðinni í Bodø.

Verkefnið á Íslandi verður fyrsta verkefni sem F-35-þoturnar sinna utan Noregs og mun 150 manna lið fylgja þotunum fjórum til Íslands, enda mun meira umstang í kringum þær en gömlu F-16-vélarnar auk þess sem þetta er fyrsta verkefni nýju vélanna utan Noregs.

Mikilvægt verkefni

„Þetta er mikilvægt verkefni fyrir mannskapinn þar sem um er að ræða raunverulegar aðstæður [n. skarpt oppdrag] sem við höfum lengi æft fyrir,“ segir Ståle Nymoen, undirofursti við Ørland-flugstöðina, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK en Nymoen ber ábyrgð á þjálfun flugmanna nýju F35-vélanna sem verða 52 talsins þegar allar verða komnar til Noregs árið 2024 og kostar þessi endurnýjun 69,7 milljarða norskra króna, eða um 924 milljarða íslenskra króna, miðað við upphaflegt verðtilboð Lockheed Martin.

F35-vélarnar geta borið mikinn vopnabúnað, þó mismikinn eftir því hvort …
F35-vélarnar geta borið mikinn vopnabúnað, þó mismikinn eftir því hvort nýta skuli torséða (e. stealth) eiginleika vélanna, þá eru öll vopn í innbyggðum hólfum en auk þess geta F35-vélarnar borið mikinn vopnabúnað að utanverðu. Ljósmynd/Matt Short/Lockheed Martin

„Við verðum alltaf í startholunum með tvær vélar sem eru tilbúnar að fara í loftið, berist ósk frá NATÓ þar um, og fljúga til móts við borgaraleg flugför, herflugför eða flugför sem við vitum ekki endilega nein deili á,“ útskýrir Nymoen verkefnið á Íslandi.

Norski flugherinn hefur sinnt loftrýmisgæslu erlendis hvort tveggja á Íslandi og í Litháen, síðast árið 2016 á Íslandi og þá með F-16-þotum. Komandi verkefni á Íslandi mun standa í þrjár vikur.

NRK

Dagsavisen

TV2

Adresseavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert