Fyrirskipa handtökur hundraða

Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands. Ríkisstjórn hans hefur allt frá …
Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands. Ríkisstjórn hans hefur allt frá 2016 látið handtaka tugþúsundir manna vegna meintra tengsla við klerkinn Fethullah Gulen. Enn bætist í. AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa fyrirskipað handtökur hundraða einstaklinga, sem sagðir eru hafa tengsl við valdaránstilraunina í Tyrklandi árið 2016. Frá þessu greinir Anadolu-fréttaveitan í Tyrklandi.

Tugir þúsunda manna hafa verið handteknir á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru frá því að valdaránstilraunin var gerð en tyrknesk stjórnvöld hafa kennt klerknum Fethullah Gulen, sem er búsettur í Bandaríkjunum, um að hafa staðið á bak við valdaránstilraunina. Því hefur hann alltaf neitað.

Hann á sér þó fjölda stuðningsmanna í tyrknesku samfélagi og hafa þeir kerfisbundið sætt handtökum frá því valdaránstilraunin var gerð.

Nýjustu handtökuskipanir tyrkneskra saksóknara ná til um það bil 700 manns, en saksóknarar í Ankara fara fram á að 467 verði handteknir í 67 borgum og bæjum landsins vegna meintrar hagræðingar úrslita í inngönguprófum lögreglunnar.

Þá fara saksóknarar í Ízmír fram á að 157 manns innan sjó- og flughers landsins verði handteknir vegna tengsla við Gulen-hreyfinguna.

Samkvæmt frétt Anadolu er svo einnig farið fram á að 71 einstaklingur innan dómskerfisins í alls 15 borgum verði handtekinn, vegna meintra tengsla við Gulen.

Dómshúsið í Istanbúl.
Dómshúsið í Istanbúl. AFP
mbl.is