Bretland fyrir faglærða

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ófaglærðir munu ekki eiga möguleika á að fá dvalarleyfi í Bretlandi samkvæmt áætlun bresku ríkisstjórnarinnar að lokinni útgöngu úr Evrópusambandinu. 

BBC fjallar um innflytjendaáætlun ríkisstjórnarinnar eftir Brexit í dag. Atvinnurekendur eru varaðir við því að þeir geti ekki lengur treyst á „ódýrt vinnuafl“ frá öðrum ríkjum Evrópu. Samkvæmt upplýsingum frá breska innanríkisráðuneytinu verður staða fólks frá ríkjum ESB og EES sú sama og annarra útlendinga eftir að samningur um frjálst flæði vinnuafls á milli Bretlands og ESB rennur sitt skeið á enda í árslok.

Verkamannaflokkurinn gagnrýnir þetta en Priti Patel innanríkisráðherra segir að nýja kerfið feli það í sér að þeir klárustu og bestu geti komið til Bretlands. 

Ríkisstjórn Bretlands ætlar að fækka þeim útlendingum sem fá heimild til að setjast að í Bretlandi og hefur hug á að setja upp innflytjendakerfi sem byggir á punktum. Bretland verði aðeins opið fyrir þá sem tala ensku, eru með fagmenntun og staðfestingu frá ábyrgðarmanni í Bretlandi. Þeir sem uppfylla þessi skilyrði fá 50 punkta. Til þess að eiga möguleika á að vinna í Bretlandi þarf viðkomandi að fá 70 punkta. Við punktasöfnunina verður litið til hæfileika fólks, launa sem það mun fá og stöðuna í viðkomandi atvinnugrein, það er hvort skortur er á vinnuafli í viðkomandi grein eða ekki. 

Ríkisstjórnin ætlar loka fyrir kerfi sem byggir á því að fólk hefur, hingað til, á grundvelli frjáls flæðis vinnuafls, getað komið til Bretlands.  Ekki sé lengur hægt að treysta á að sækja um og að umsóknin verði samþykkt. Þær 3,2 milljónir sem eru nú þegar í Bretlandi frá ríkjum ESB og hafa sótt um að búa þar áfram eiga þess í stað að uppfylla þarfir atvinnulífsins fyrir vinnuafl. 

Frétt BBC

mbl.is