Leita morðingja sjö ára gamallar stúlku

Maria Magdalena Othon, móðir hinnar sjö ára gömlu Fátimu Aldriguett, …
Maria Magdalena Othon, móðir hinnar sjö ára gömlu Fátimu Aldriguett, bar dóttur sína til grafar í fyrradag. AFP

Lögreglan í Mexíkó leitar morðingja Fátimu Aldrighett, sjö ára gamallar stúlku, sem hvarf fyrir utan skólann sinn í Mexíkóborg á þriðjudaginn í síðustu viku. Lík Fátimu fannst illa leikið á laugardag. 

Lögreglan hefur óskað eftir að ná tali af konu sem sést til í upptöku á öryggismyndavél fyrir utan skólann daginn sem stúlkan hvarf. Leigusali konunnar bar kennsl á hana og lét lögreglu vita. Þegar lögreglan kom á heimili hennar, sem er ekki langt frá heimili stúlkunnar og fjölskyldu hennar, hafði hún yfirgefið íbúðina en föt og skór af stúlkunni fundust í íbúðinni. 

Lögreglan hefur óskað eftir að ná tali af konu sem …
Lögreglan hefur óskað eftir að ná tali af konu sem sést til í upptöku á öryggismyndavél fyrir utan skólann daginn sem stúlkan hvarf. Ljósmynd/Fiscalia General de Justicia

Fátima var að bíða eftir móður sinni fyrir utan skólann daginn sem hún hvarf. Móðir hennar tafðist í umferð og var stúlkan látin bíða ein fyrir utan skólann. Fjölskyldan tilkynnti um hvarf hennar þegar hún fannst hvergi þegar móðirin kom loks að sækja hana. 

Lík hennar fannst fjórum dögum seinna í plastpoka í Tláhuac-hverfinu í Mexíkóborg. 

Lögreglan hefur boðið hverjum þeim sem getur leitt hana á slóð konunnar tvær milljónir pesóa, eða sem nemur um 13,8 milljónum, að launum. Talið er að hún sé á aldrinum 42-45 ára. 

Fjöldi fólks mótmælti kynbundnu ofbeldi í Mexíkóborg í gær, í …
Fjöldi fólks mótmælti kynbundnu ofbeldi í Mexíkóborg í gær, í kjölfar morðsins á Fátimu og Ingrid Escamillu. AFP

Málið hefur vakið mikinn óhug í Mexíkó og hafa þúsundir tjáð sig um morðið á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #JusticeParaFatima eða „Réttlæti fyrir Fátimu“. Á föstudag söfnuðust hundruð manna saman í borginni til að mótmæla kynbundnu ofbeldi í kjölfar morðs á Igrid Escamilla, 25 ára. Sambýlismaður hennar er grunaður um að hafa stungið hana til bana og limlest lík hennar til að fela slóð sína. 

Ofbeldi gegn konum er umfangsmikið vandamál í Mexíkó og er yfir 700 morðrannsóknum á konum ólokið í landinu. Aðgerðasinnar telja töluna þó mun hærri. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert