17 ára fannst látin í íbúð

Horft yfir Tromsø 14. janúar, Íshafsdómkirkjan, eða Ishavskatedralen, næst brúnni. …
Horft yfir Tromsø 14. janúar, Íshafsdómkirkjan, eða Ishavskatedralen, næst brúnni. Sautján ára gömul stúlka fannst látin í íbúð í miðbænum á þriðjudagskvöld og eru tveir menn á þrítugsaldri í haldi lögreglu, grunaðir um að hafa komið henni í þannig ástand að henni væru allar bjargir bannaðar. AFP

Tveir menn á þrítugsaldri eru í haldi lögreglunnar í Tromsø í Noregi eftir að 17 ára gömul stúlka fannst látin í íbúð þar í bænum undir miðnætti á þriðjudagskvöld. Lögregla upplýsir að aðstæður á vettvangi hafi bent til saknæms athæfis, þó ekki þess að stúlkunni hefði beinlínis verið ráðinn bani, en mennirnir tveir eru grunaðir um að hafa komið henni í þannig ástand að henni hafi verið allar bjargir bannaðar.

„Það táknar að maður hafi aðhafst eitthvað til að manneskja geti sér enga björg veitt,“ segir Lene Fabek, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Tromsø, við norska ríkisútvarpið NRK. 

Lögreglu barst tilkynning um stúlkuna um klukkan 23 á þriðjudagskvöldið að norskum tíma. Hinir handteknu voru þá ekki á staðnum en ljóst þótti að þeir hefðu verið þar skömmu áður en stúlkan dó. Einnig hefur lögregla upplýsingar um að fleiri hafi verið í íbúðinni og óskar hún nú eftir að þeir gefi sig fram og ræði við lögreglu.

Játar ekki sök í málinu

Tæknideild lögreglu er enn við störf á staðnum auk þess sem lögreglumenn ganga hús úr húsi í nágrenninu í dag og leita upplýsinga hjá nágrönnum sem kynnu að hafa orðið einhvers varir.

Lögregla þekkir til beggja mannanna, sem handteknir voru, og hafa þeim verið útvegaðir verjendur. Annar verjendanna segist ekki vilja tjá sig við fjölmiðla að svo stöddu en hinn, Ulf E. Hansen, segir að skjólstæðingur hans játi ekki sök í málinu.

„Hann viðurkennir ekkert og vísar grunsemdunum á bug. Hann hefur gert grein fyrir því sem hann getur gert grein fyrir og þar við situr,“ segir Hansen við NRK.

Mennirnir mættu fyrir dómara við Héraðsdóm Norður-Troms klukkan 13 að íslenskum tíma í dag en norskir fjölmiðlar hafa ekki greint frá því hvort þeim var þar úrskurðað gæsluvarðhald. Fabek rannsóknarlögreglumaður segir að niðurstöður bráðabirgðakrufningar liggi fyrir en þær varpi þó ekki ljósi á atburðarásina fyrir andlát stúlkunnar auk þess sem dánarorsök sé enn óljós.

„Við getum ekki sagt með neinni vissu hvað leiddi til dauðsfallsins en vinnum út frá nokkrum kenningum. Eitt af því sem við rannsökum er hvort dánarorsökin hafi verið fíkniefni,“ segir Fabek.

Hún segir lögreglu kunnugt um að myndir eða myndskeið frá vettvangi hafi farið í dreifingu á samfélagsmiðlum. „Um það viljum við fá upplýsingar. Búi einhver yfir vitneskju gegnum Snapchat eða aðra samfélagsmiðla biðjum við þá að koma henni á framfæri við lögreglu.“

NRK

NRK II

VG

Aftenposten

mbl.is