Létust í snjóflóði á Svalbarða

Þjóðverjarnir sem létust lentu í snjóflóði á eða við jökulinn …
Þjóðverjarnir sem létust lentu í snjóflóði á eða við jökulinn Fridtjovbreen á Svalbarða á þriðja tímanum í dag að norskum tíma. Veður var slæmt á svæðinu og gat björgunarþyrla með hund og mannskap ekki lent þar. Skjáskot/Mapbox

Tveir þýskir ferðamenn létust í snjóflóði á Svalbarða á þriðja tímanum í dag að norskum tíma. Voru mennirnir í fimm manna hópi ferðamanna í fylgd tveggja leiðsögumanna frá rússneska ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Travel Company og voru á ferð á eða við Fridtjovbreen, 40 — 50 km suðvestur af Longyearbyen.

Sýslumanninum á Svalbarða barst tilkynning um að tveggja manna væri saknað um klukkan 14:50 og sendi þá embættið þegar björgunarþyrlu á vettvang með björgunarfólk og hund.

Illviðrasamt var á leitarsvæðinu og gat þyrlan því ekki lent þar. Leitarmannskapur kom sér þá á svæðið eftir öðrum leiðum og fundust Þjóðverjarnir þá fljótlega látnir eftir að hafa orðið fyrir snjóflóði.

Erna Solberg sendi samúðarkveðju

Fridtjovbreen er jökull, sá stærsti á þessum hluta eyjarinnar, og skríður fram úr Grønfjordbreen í norðri og í sjó fram í Van Mijenfjorden á suðvestanverðu Nordenskiöld-landi.

„Þetta er ægilegt. Við aðstoðum ferðaþjónustufyrirtækið á alla lund með okkar þekkingu og reynslu,“ sagði Ronny Strømnes, framkvæmdastjóri ferðamálastofu svæðisins, Visit Svalbard.

Erna Solberg forsætisráðherra sendi einnig samúðarkveðjur á Twitter, sagði atburðinn sorglegan og væri hugur hennar hjá aðstandendum hinna látnu og íbúum á svæðinu.

Þyrlan kemur til lendingar á flugvellinum í Longyearbyen eftir að …
Þyrlan kemur til lendingar á flugvellinum í Longyearbyen eftir að henni reyndist ókleift að lenda á vettvangi. Björgunarmenn komu sér á vettvang eftir öðrum leiðum og fundust mennirnir þá látnir. Skjáskot/Fréttir TV2

Kjerstin Askholt sagði við norska ríkisútvarpið NRK síðdegis í dag að ferðamennirnir sem eftir lifa og leiðsögumennirnir yrðu fluttir til smábæjarins Barentsburg þar sem hlúð yrði að þeim. Enn fremur sagði hún fulltrúa rannsóknarlögreglunnar Kripos myndu hafa samband við aðstandendur hinna látnu í Þýskalandi eins og verklagsreglur gera ráð fyrir.

NRK ræddi einnig við þýska sendiráðið í Ósló sem sagðist hafa fengið það staðfest að tveir þýskir ríkisborgarar hefðu látið lífið á Svalbarða.

Fyrirsvarsmenn rússneska ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Travel Company báðust undan því að ræða málið við NRK nú undir kvöld.

NRK

VG

TV2

mbl.is