Kviðdómur virðist klofinn í máli Weinstein

Harvey Weinstein yfirgefur dómshúsið á Manhattan þar sem réttarhöldin fara …
Harvey Weinstein yfirgefur dómshúsið á Manhattan þar sem réttarhöldin fara fram. AFP

Kviðdómur í máli Harvey Weinstein gaf í skyn að hann ætti erfitt með að komast að samkomulagi í alvarlegustu ákæruatriðunum á hendur honum í réttarhöldunum yfir honum í gær.

Alvarlegustu ákærurnar snúa að kynferðislegri árás en fjögurra daga umhugsunarfresti kviðdómsins lauk í gær.

Kviðdómendurnir tólf spurðu dómarann hvort þeir mættu vera klofnir í öðru eða báðum alvarlegustu ákæruatriðunum en sammála í hinum þremur ákæruatriðunum.

Weinstein, sem er 67 ára, á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi ef hann verður fundinn sekur. Hann er ákærður í fimm liðum, eða fyrir tvenns konar kynferðisárásir, tvær nauðganir og eitt kynferðisbrot. Í kviðdóminum eru sjö karlmenn og fimm konur.

Kviðdómurinn þarf að komast að einróma niðurstöðu í öllum ákæruatriðum. Ef Weinstein verður fundinn sekur í alvarlegustu málunum þarf kviðdómurinn ekki að taka hinar ákærurnar til skoðunar.

Dómarinn bað kviðdóminn um að halda áfram að skoða málið og halda réttarhöldin áfram á mánudaginn.

mbl.is