Stofnandi góðgerðarsamtaka misnotaði sex konur

Jean Vanier.
Jean Vanier. Ljósmynd/Kotukaran/Wikipedia

Kaþólskur trúarleiðtogi, sem stofnaði virt samtök fyrir fólk sem á erfitt með nám, misnotaði sex konur kynferðislega í Frakklandi, að því er kemur fram í nýrri skýrslu.

Kanadamaðurinn Jean Vanier stofnaði alþjóðlegu samtökin L'Arche í Frakklandi árið 1964 og lést í fyrra, níræður að aldri.

Engin þeirra kvenna sem hann misnotaði átti við námsörðugleika að stríða, að sögn BBC.

Stofnunin L'Arche International ákvað að láta rannsaka Vanier eftir að grunsemdir kviknuðu um brot hans á síðasta ári. Skýrslan verður birt í heild sinni á næstu dögum.

„Við erum í áfalli vegna þessara uppgötvana og við fordæmum þessar gjörðir, sem eru algjörlega í mótsögn við gildin sem Jean Vanier sagðist trúa á,“ segir í yfirlýsingu á vefsíðu samtakanna, L'Arche International.

Samtökin reka heimili og miðstöðvar í 38 löndum og eru félagar þeirra um 10 þúsund talsins.

Djúpt sálfræðilegt tak á konunum

Fram kemur í skýrslunni að Vanier hafi misnotað konurnar í Trosly-Breuil í Frakklandi á árunum 1970 til 2005. Notaði hann trúarlega leiðsögn sem réttlætingu fyrir hegðun sinni.

„Þessi hegðun gefur til kynna djúpt sálfræðilegt og trúarlegt tak sem Jean Vanier hafði á þessum konum,“ segir í skýrslunni. Á meðal kvennanna sem hann misnotaði voru aðstoðarkonur og nunnur, að sögn kanadíska dagblaðsins Globe and Mail.

Vanier deildi einnig konum með prestinum Thomas Philippe sem lést árið 1993. Taldist hann vera „andlegur faðir“ Vanier.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti minntist Vanier hlýlega þegar hann lést í fyrra.

„Þessi merki andans maður og mannvinur skilur eftir sig innihaldsríkari og betri heim,“ sagði hann í yfirlýsingu.

mbl.is