Lést í heimagerðri eldflaug

Mike Hughes við eldflaug sína árið 2017.
Mike Hughes við eldflaug sína árið 2017.

Ofurhuginn Mike Hughes, stundum kallaður „hinn brjálaði“, er látinn eftir tilraun hans til flugskots í heimatilbúinni eldflaug sinni í Kaliforníu í Bandaríkjunum í gær. Hughes komst í fréttirnar fyrir tæpum þremur árum þegar hann gerði heyrinkunnugt að hann skyldi afsanna að jörðin sé hnöttótt og að til þess myndi hann skjóta sér í loft upp í heimasmíðaðri eldflaug.

Myndband af atvikinu, þegar eldflaug Hughes skýst á loft en hrapar svo skömmu síðar til jarðar, hefur farið eins og eldur í sinu um netheima síðasta sólarhringinn. Þar má sjá þegar fallhlíf skýst úr eldflauginni stuttu eftir flugskot. Eldflaugarskotið var sérstaklega tekið upp fyrir nýjan sjónvarpsþátt Vísindastöðvarinnar, „Heimagerðir geimfarar“.

Vísindastöðin sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu á Twitter þar sem sagði að það hefði alltaf verið draumur Hughes að skjóta eldflauginni á loft og að Vísindastöðin hefði verið á staðnum til að skrásetja sögu hans.

Náði 570 metrum í mars

Markmið Hughes, og félaga hans Waldo Stakes, var að ná um 1.500 metra hæð í eldflauginni sem var knúin vetni. Hughes hafði áður náð um 570 metra hæð í eldflaug sinni, í mars í fyrra, og náði þá að lenda, nokkuð harkalega þó, með fallhlíf sinni. 

Þá er skemmst frá að segja að Hughes setti árið 2002 Guinness-heimsmetið fyrir lengsta limúsínustökkið, þegar hann stökk ríflega 31 metra á Lincoln Town Car-limúsínu.

Fréttir BBC og CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert