Bíl ekið inn í mannþröng í Þýskalandi

Þýskir miðlar hafa greint frá því að minnsta kosti 15 …
Þýskir miðlar hafa greint frá því að minnsta kosti 15 hafi slasast, þar á meðal ung börn. AFP

Nokkrir slösuðust þegar bíl var ekið inn í hóp fólks þar sem karnival fór fram í bænum Volksmarsen í Þýskalandi. Ökumaður bílsins hefur verið handtekinn, en of snemmt er að segja til um hvort hann ók viljandi inn í mannþröngina eða óvart. AFP-fréttastofan greinir frá.

Myndir frá vettvangi sýna lögreglumenn og viðbragðsaðila standa við silfurlitaðan Mercedes-Benz með dyrnar opnar, og brak þar allt í kring. Þýskir miðlar hafa greint frá því að minnst 15 hafi slasast, þar á meðal ung börn. Þá segir sjónarvottur í samtali við fjölmiðil þar í landi að ökumaðurinn hafa hrópað eitthvað á fólk og hann hafi helst reynt að aka niður börn.

Karnival er haldið víða í Þýskalandi í dag þar sem bæði börn og fullorðnir klæða sig upp í búninga og fara í skrúðgöngur. Tónlist er spiluð og sælgæti fleygt yfir mannskapinn.

Þjóðverjar eru enn að jafna sig eftir skotárás í borginni Hanau sem átti sér stað síðastliðinn miðvikudag, en þá létust tíu manns eftir að karlmaður haldinn miklum kynþáttafordómum skaut á fólk á bar og kaffihúsi. Mannskæðasta árásin í Þýskalandi síðari ár var þegar öfgatrúamaður keyrði á gangandi vegfarendur á jólamarkaðnum í Berlín árið 2016 og varð 12 manns að bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert