Blaðamennska ekki afsökun fyrir því að brjóta lög

Lögmaður bandaríska ríkisins sagði Assangse vísvitandi hafa stefnt fólki í …
Lögmaður bandaríska ríkisins sagði Assangse vísvitandi hafa stefnt fólki í hættu. AFP

Að birta upplýsingar í þágu blaðamennsku er ekki afsökun fyrir því að brjóta lögin, sögðu lögmenn bandaríska ríkisins fyrir dómi í Bretlandi í dag þar sem framsalsbeiðni yfir Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, er tekin fyrir. Málflutningur í málinu hófst í dag í Woolwich-glæpadómstólnum í suðausturhluta London. The Guardian greinir frá.

Það var James Lewis sem hóf málflutning fyrir bandaríska ríkið, en hann sagði að með því að dreifa óritskoðuðu efni hefði Assange vísvitandi sett mannréttindafrömuði, aðgerðasinna, blaðamenn og fjölskyldur þeirra í mikla hættu á svæðum þar sem einræðisherrar réðu ríkjum.

Fjöldi mótmælenda kom saman fyrir utan dómshúsið í dag.
Fjöldi mótmælenda kom saman fyrir utan dómshúsið í dag. AFP

„Vörnin byggir á því að hættan sem þetta fólk, sem kallað er uppljóstrarar, var sett í, sé á einhvern hátt ofmetin. Ég vil hins vegar minna dómstólinn á að þessir einstaklingar voru að dreifa upplýsingum um svæði eins og Íran og samtök á borð við al-Kaída.

Framsals­beiðnin bygg­ir á því að Assange sé grunaður um njósn­ir í Banda­ríkj­un­um. Hann er ákærður fyr­ir að brjóta gegn njósna­lög­gjöf Banda­ríkj­anna vegna birt­ing­ar á leyni­leg­um hernaðar- og stjórn­sýslu­gögn­um er varða þjóðaröryggi. Gögnin vörpuðu ljósi á aðgerðir Bandaríkjamanna í Afganistan og Írak og uppljóstruðu meðal annars um árásir Bandaríkjahers á saklausa borgara.

Ákæru­liðirn­ir eru 18 tals­ins og gæti Assange átt yfir höfði sér 175 ára fangelsi verði hann framseldur til Bandaríkjanna og réttað yfir honum þar.

Taka væntanlega fyrir gylliboð Bandaríkjaforseta

Assange sat aftast í dómsalnum í dag og fylgdist vel með því sem fór fram. Þá var faðir hans staddur á áhorfendapöllunum. Inni í salnum mátti glögglega heyra hróp og köll mótmælenda sem fjölmenntu fyrir utan dómshúsið.

Lewis benti á að þetta snerist ekki um dreifingu á upplýsingum sem kæmu sér illa fyrir bandaríska ríkið eða væru vandræðalegar á einhvern hátt. Aðeins væri verið að ákæra fyrir glæpsamlegar aðgerðir; samsæri um að brjótast inn og stela upplýsingum. Hvort sem um væri að ræða blaðamenn eða aðra, allir sem gerðu slíkt þyrftu að svara til saka.

Málflutningur lögmanna Assange fer fram á morgun, þriðjudag, en gera má ráð fyrir því að þeir muni meðal annars taka fyrir tilboð sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á að hafa gert Assange. Hann er sagður hafa viljað náða Assange, gegn yfirhylmingu. Skilyrðið var að Assange myndi full­yrða að Rúss­ar hafi ekki kom­ist yfir tölvu­póst­sam­skipti demó­krata í for­seta­kosn­ing­un­um árið 2016, líkt og kom fram á vef Wiki­leaks.

Gæti haft „hrollvekjandi afleiðingar“

Amnesty International hefur kallað eftir því að yfirvöld í Bandaríkjunum felli niður allar ákærur á hendur Assange sem tengjast njósnum og að hann verði leystur úr haldi í kjölfarið. Verði ákærurnar ekki felldar niður þurfi stjórnvöld í Bretlandi að tryggja að Assange verði ekki framseldur til Bandaríkjanna þar sem hætta er að hann verði fyrir alvarlegum mannréttindabrotum.

John Shipton, faðir Assange, fylgdist með málflutningnum af áhorfendapöllum.
John Shipton, faðir Assange, fylgdist með málflutningnum af áhorfendapöllum. AFP

„Það að bandarísk stjórnvöld hafi miskunnarlaust reynt að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins er alvarleg árás gegn réttinum til tjáningarfrelsis,“ er haft eftir Massimo Moratti, aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópudeildar Amnesty International.

Er það sagt geta haft „hrollvekjandi afleiðingar“ fyrir fjölmiðlafólk og aðra sem afhjúpa misgjörðir opinberra aðila með birtingu áreiðanlegra upplýsinga, fari svo að Assange verði framseldur og ákærurnar ekki felldar niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert