Plankaði í rúma átta tíma og sló heimsmet

„Ekki segja hvað tímanum líður upphátt,“ segir í vinsamlegri ábendingu …
„Ekki segja hvað tímanum líður upphátt,“ segir í vinsamlegri ábendingu þeirra sem fylgdust með George Hood slá heimsmetið í planki. Ljósmynd/Twitter

George Hood er 62 ára fyrrverandi sjóliði í bandaríska hernum. Þegar hermennskunni lauk tók Hood sér ýmislegt fyrir hendur, meðal annars að planka. Þar er hann svo sannarlega á réttri hillu því nýverið sló hann heimsmetið í planki þegar hann hélt planka í átta klukkustundir, fimmtán mínútur og fimmtán sekúndur. 

Hood bætti met Kínverjans Mao Weidong um fjórtán mínútur og fimmtán sekúndur, en það setti hann fyrir fjórum árum. Með því að slá metið vill Hood vekja athygli jákvæðum áhrifum hreyfingar á andlega heilsu, þó svo að átta klukkustundir af „planki“ séu kannski ekki fyrir hvern sem er. 

„Ég verð að aftengja mig alveg við tímann. Það er list og hæfni sem ég hef tileinkað mér með árunum,“ sagði Hood í samtali við BBC eftir afrekið. Á meðan tíminn leið ómaði hávær rokktónlist sem Hood notaði til að upplifa æskudraum um verða rokkstjarna. „Ég get fullvissað þig um að þessar átta klukkustundir, fimmtán mínútur og fimmtán sekúndur var ég rokkstjarna,“ sagði Hood. 

Hood lét plankann ekki nægja því hann tók 75 armbeygjur eftir að hafa slegið heimsmetið. Aðspurður hvernig hann hagaði undirbúningnum sagðist hann hafa eytt 2.100 klukkustundum alls í að planka síðustu níu ár. 

Eftir að hafa slegið metið sagðist Hood ætla að leggja plankið á hilluna.


mbl.is