Reyna að setja met á Everest

Everest.
Everest. AFP

Fjögurra manna hópur sjerpa sem leggur af stað í dag ætlar að reyna að setja met á Everest með því að ná á tind fjallsins á aðeins fimm dögum. Aldrei hefur verið farið á tindinn á jafn stuttum tíma að vetrarlagi áður. Eins er þetta í fyrsta skipti í meira en aldarfjórðung sem Everest er klifið að vetri til. 

Síðasta skiptið sem fjallgöngumenn náðu á tindinn að vetri var árið 1993. Foringi hópsins, Tashi Lakpa, sem hefur átta sinnum staðið á tindi hæsta fjalls heims, segir að aldrei áður hafi verið reynt að fara svo hratt upp fjallið að vetri til. Ekki nóg með það heldur verða þeir ekki með auka súrefni sér til aðstoðar. Aðeins einu sinni hefur fjallgöngumanni tekist að ná á tindinn að vetri án aðstoðar súrefnis. Nepalskur fjallgöngumaður gerði það í desember 1987. 

Auk Tashi Lakpa verða Pasang Nurbu, Ming Temba og Halung Dorchi í leiðangrinum. Þeir hafa allir farið oftar en einu sinni á tind Evrerest.

„Ég þekki fjallið. Við erum vel undirbúnir og höfum lokið aðlöguninni. Stærsta áskorunin við undirbúninginn er að takmarka hættuna af háfjallaveiki,“ segir Tashi Lakpa.

Tvö teymi fjallgöngumanna sem hafa beðið í grunnbúðum í einhvern tíma munu fylgja þeim áleiðis. Um er að ræða spænska fjallgöngumanninn Alex Txikon og hóp hans ásamt þýska fjallgöngumanninum Jost Kobusch og teymi hans. Þessir tveir hópar vonast einnig til þess að ná á tind Everest að vetri til.

Kuldinn fer oft niður fyrir 40 gráðu frost á þessum árstíma og eins er afar hvasst í kringum toppinn á þessum árstíma. Við slíkar aðstæður frýs húð á innan við fimm mínútum og því mikil hætta á slæmu kali.

Flestir reyna að fara á tind Everest á vorin þegar veðrið er skást á þessum slóðum. Nýtt met var slegið síðasta vor er 885 manns náðu á tindinn, þar af 644 sunnan megin og 241 að norðan. Íslendingar áttu þar nokkra fulltrúa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert