Gagnrýna fangelsisdóm útgefanda í Kína

Gui Min­hai.
Gui Min­hai. AFP

Evrópusambandið hefur gagnrýnt kínversk yfirvöld vegna fangelsisdóms sem sænskur bókaútgefandi og bóksali hlaut í gær. Gui Min­hai var dæmdur í tíu ára fangelsi í Kína fyr­ir að hafa með ólög­leg­um hætti veitt er­lend­um leyniþjón­ust­um upp­lýs­ing­ar.

Hann er einn fimm bókaútgefenda í Hong Kong sem eru þekkt­ir fyr­ir út­gáfu á klúr­um bóka­titl­um um kín­verska stjórn­mála­leiðtoga. 

„Það er fjölda spurninga ósvarað í tengslum við málið,“ kom meðal annars fram í yfirlýsingu frá talsmanni Evrópusambandsins. 

Þar kom enn fremur fram að Evrópusambandið hefði rætt mál Minhai við yfirvöld í Kína áður og myndi halda áfram að gera það.

Gui var hand­tek­inn af kín­versk­um yf­ir­völd­um um borð í lest á leið til Pek­ing í fe­brú­ar 2018. Við dómsuppsögu í gær kom fram að hann fékk kín­versk­an rík­is­borg­ara­rétt sinn end­ur­nýjaðan árið 2018 en ekki kem­ur fram hvort hann hafi látið frá sér sænsk­an rík­is­borg­ara­rétt á sama tíma. 

Kínversk yfirvöld líta svo á að ekki sé hægt að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt og þess vegna var málsmeðferðin á þann veg að Gui væri heimamaður.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði að þar krefjist yfirvöld þess að Gui verði látinn laus. Fjölskylda hans segir handtökuna lið í pólitískum hreinsunum í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert