Komst með barnið út um glugga

Kona á þrítugsaldri er í haldi lögreglu í Nordreisa í …
Kona á þrítugsaldri er í haldi lögreglu í Nordreisa í Troms eftir að hún komst út úr lokuðu vistunarúrræði í nótt, braust inn í hús í nágrenninu með öxi á lofti og kveikti í því. Kona og barn, íbúar í húsinu, komust út um glugga. Ljósmynd/Vegfarandi

Kona og barn hennar sluppu naumlega úr brennandi húsi í Nordreisa í Troms í Noregi í nótt eftir að kona á þrítugsaldri, vistmaður í lokuðu úrræði á vegum sveitarfélagsins, komst út um glugga þar, braust inn í íbúðarhúsið, sem er í nágrenninu, með öxi á lofti og kveikti í því.

Lögreglunni barst fyrst tilkynning klukkan 01:36 í nótt, aðfaranótt þriðjudags, um konu sem gengi um götur bæjarins með öxi í hendi. Skömmu síðar, klukkan 01:49, hringdi kona og tilkynnti um innbrot. Tilkynnandi var íbúi í húsinu og sagði lögreglu að einhver hefði brotist inn og hún heyrði skarkala frá viðkomandi.

Per Arve Aas, aðgerðastjóri lögreglunnar í Troms-umdæmi, segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að lögregla hafi beðið konuna að koma sér út úr húsinu og haldið henni á línunni.

Brunakerfið í gang

„Í miðju samtalinu fer brunakerfið í gang og við ítrekum við íbúann að koma sér út úr húsinu. Nokkrum mínútum síðar er húsið alelda,“ segir Aas frá. Konan sem hringdi komst út um glugga á húsinu með barn sitt sem svaf þegar eldurinn kviknaði.

Konan, sem skömmu áður braust út af vistheimilinu, var handtekin á staðnum þegar lögregla kom á vettvang og verður að líkindum leidd fyrir Héraðsdóm Norður-Troms á morgun og gæsluvarðhalds krafist yfir henni.

Hún hefur áður hlotið fimm dóma, meðal annars tveggja ára dóm fyrir að kveikja í öðru húsi í sama bæjarfélagi sem gjöreyðilagðist. Húsið sem nú kviknaði í er einnig algjörlega ónýtt eins og ráða má af myndinni með fréttinni sem vegfarandi tók.

Inn og út af stofnunum í tíu ár

Handteknu konunni, sem þannig er ástatt fyrir að hún skilur ekki afleiðingar gjörða sinna, tókst að brjótast út úr húsnæðinu, sem hún var vistuð í, með því að fara út um glugga baðherbergis sem iðnaðarmenn höfðu verið að dytta að og öryggismál þar því ekki eins og vera ber.

Konan hefur verið inn og út af stofnunum í tíu ár og hefur fjölskylda hennar margákallað heilbrigðiskerfið í von um hjálp svo sem lesa má í ítarlegri umfjöllun NRK frá 2018 sem hefst á þeim orðum lögreglunnar að „Dina“, eins og NRK kallaði hana, væri hættulegasta manneskjan í lögregluumdæminu.

Eldhafið varð slíkt þegar mest logaði í nótt að slökkvilið taldi þann kost vænstan að rýma tvö næstu hús vegna reykjarmakkarins sem umlukti húsbrennuna.

Leggjumst kylliflöt

Hilde Anita Nyvoll, bæjarstjóri í Nordreisa, sagði að hér hefði verklag farið úrskeiðis. „Sveitarfélagið ber ábyrgð á þessari þjónustu [vistunarúrræðinu] svo við leggjumst kylliflöt og biðjumst afsökunar,“ sagði Nyvoll og bætti því við að sveitarfélagið liti það mjög alvarlegum augum að kveikt væri í húsum þar sem fólk væri innandyra.

Áfallahjálparteymi Nordreisa var virkjað þegar í stað og íbúafundur haldinn í hádeginu í dag en sambýlið eða vistunarúrræðið, þar sem konan var vistuð, hefur ekki verið óumdeilt meðal íbúa í næsta nágrenni.

„Margir eru óttaslegnir og við erum öll snortin í dag. Þess vegna er það mikilvægt að við komum saman og fólk geti fundið til öryggis. Það á að vera öruggt að búa í Nordreisa,“ sagði Nyvoll bæjarstjóri á íbúafundinum.

NRK

VG

TV2

Dagbladet

Folkemøte i Nordreisa
mbl.is