Þúsund í sóttkví á hóteli í Adeje

H10 Costa Adeje Palace-hótelið á Tenerife.
H10 Costa Adeje Palace-hótelið á Tenerife. Skjáskot af Bookings

Um eitt þúsund gestir á hótelinu H10 Costa Adeje Palace á Tenerife eru í sóttkví eftir að ítalskur læknir, sem var gestur á hótelinu, greindist með kórónuveiruna í gær. Þetta kemur fram í spænskum fjölmiðlum í dag og eins Metro í Bretlandi en hótelið er mjög vinsælt meðal breskra ferðamanna. Úrval Útsýn er ein þeirra ferðaskrifstofa sem selur gistingu á hótelinu. Hið sama á við um Heimsferðir. 

Lögregla stendur vörð við hótelið til að tryggja að enginn fari þangað inn eða út og ekki er svarað í síma á hótelinu. Maðurinn sem er með veiruna er í einangrun á sjúkrahúsi og verða sýni úr rannsókn á honum send til Madrid þar sem þau verða rannsökuð aftur líkt og reglur kveða á um á Spáni.

Maðurinn er frá Lombardia-héraði á Ítalíu en þar hefur kórónaveiran geisað undanfarna daga. Maðurinn á að hafa verið á hótelinu með eiginkonu sinni í sex daga. Hann á að hafa verið slappur í einhverja daga og farið á heilsugæslustöð til þess að láta skoða hvort hann væri með veiruna.

Þetta er þriðja staðfesta tilvik kórónuveirunnar á Spáni en það fyrsta á Tenerife. Breti greindist smitaður á Mallorka 9. febrúar og Þjóðverji á La Gomera, sem er ein af Kanaríeyjunum, 1. febrúar.

Margir ferðamenn voru strandaglópar á Tenerife á sunnudag vegna sandstorms. Meðal þeirra eru ferðamenn sem dvöldu á sama hóteli og maðurinn. 

El Mundo

Metro

Kínversk yfirvöld greindu frá því í dag að 71 til viðbótar hafi látist á meginlandi Kína úr veirunni sem þýðir að alls eru dauðsföllin þar 2.663 talsins. 508 ný smit voru tilkynnt í Kína í dag. Öll eru þau, fyrir utan 9, í Huan-héraði. Yfir 80 þúsund manns í heiminum hafa smitast af COVID-19 veirunni. Í Suður-Kóreu hefur verið tilkynnt um 60 ný tilvik síðasta sólarhringinn sem þýðir að tæplega 900 hafa smitast þar í landi. 

Uppfært klukkan: 8:33

Samkvæmt upplýsingum frá Þórunni Reynisdóttur, forstjóra Úrval útsýn, er ekki gefið upp  hvort Íslendingar á vegum ferðaskrifstofunnar séu á umræddu hóteli. 

mbl.is