Hönnuður neðanjarðarlestakorts New York allur

Kort Hertz kom út árið 1979 og hefur verið betrumbætt …
Kort Hertz kom út árið 1979 og hefur verið betrumbætt nokkrum sinnum af teymi hans. Ljósmynd/Twitter

Michael Hertz, hönnuður og höfundur korts af neðanjarðarlestakerfi New York-borgar, er látinn, 87 ára að aldri. 

Fyrirtæki hans, Michael Hertz Associates, var ráðið af borgaryfirvöldum á áttunda áratugnum, til að endurhanna kort af neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Á þeim tíma var glæpatíðni í hæstu hæðum og fáir nýttu sér neðanjarðarlestakerfið. 

Hönnunarteymi Hertz bætti við götum á kortið, endurmótaði teikningar af almenningsgörðum, lagfærði útlínur borgarhluta og gerði leiðarkerfið aðgengilegra með litakóðuðum snákslaga línum. Til að ná því síðastnefnda réð hann japanskan hönnuð sem ferðaðist um allt leiðakerfið með lokuð augun og fékk þannig tilfinningu fyrir legu kerfisins. 

Kort Hertz kom út árið 1979 og hefur verið betrumbætt nokkrum sinnum af teymi hans. 

Hertz sagði í viðtali við the New York Times árið 2004 að hann kynni að meta það enn þann dag í dag þegar ferðamenn nýta sér kortið í fyrsta sinn. „Það gleður mig þegar ég sé einhvern í stuttbuxum úr leðri með skrautlegum axlaböndum [lederhosen] stara á kortið,“ sagði hann og vísaði væntanlega til þýskra ferðamanna. 

Frétt BBC

mbl.is