Veiran breiðist hratt út í Íran

Kórónuveiran heldur áfram að breiðast út í Íran.
Kórónuveiran heldur áfram að breiðast út í Íran. AFP

Alls hafa 19 látist af kór­ónu­veirunni COVID-19 í Íran og 139 smitast. Síðasta sólarhringinn greindust 44 ný tilvik. Veiran hefur nú náð útbreiðslu um allt landið. Flest ný tilvik eða fimmtán talsins eru í borginni Qom, níu í borginni Gila og fjögur í Teheran og færri tilvik í öðrum borgum og héruðum þvert yfir landið.

Mælst er til þess að Íranir snú til síns heima. Þetta kom fram í máli Kianoush Jahanpour, talsmanns heilbrigðisyfirvalda, þegar hann greindi frá stöðu mála í ríkissjónvarpi Írans í dag.  

Af þeim 139 sem hafa smitast er aðstoðar heilbrigðisráðherra landsins. Nýverið sakaði Mike Pompeo, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, írönsk yfirvöld um að upplýsa ekki nákvæmlega um útbreiðslu veirunnar þar í landi.  Hassan Rouhani, forseti Írans, svaraði honum fullum hálsi og fullyrti að Bandaríkjamenn dreifðu „hræðsluáróðri.“ 

Kianoush Jahanpour talsmaður heilbrigðisráðuneytis í Íran.
Kianoush Jahanpour talsmaður heilbrigðisráðuneytis í Íran. AFP

Frá því á miðvikudaginn hafa yfirvöld reynt árangurslaust að hefta útbreiðsluna frá því fyrstu tvö dauðsföllin komu upp í borginni Qom. Borgina sækja bæði pílagrímar sem og fræðimenn en hún er talin vagga íslamskra fræða. Þar hefur öllum helstu opinberu byggingum verið lokað meðal annars skólum, söfnum og íþróttaviðburðum verið frestað svo fátt eitt sé nefnt. 

Samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisráðuneytinu hefur veiran breiðst út til allra fjögurra horna landsins. Íran er með landamæri að Aserbaísjan, Armeníu og Túrkmenistan í norðri, Pakistan og Afganistan í austri, Tyrklandi og Írak í vestri og strandlengju að Persaflóa í suðri og Kaspíahafi í norðri. 

Í Gilan er staðan ekki góð, samkvæmt talsmanni heilbrigðisráðuneytisins. Þar hafa greinst næst flest ný tilvik. Af þeim eru nokkrir sem hafa ferðast til annarra héraða. Gilan sem liggur að Kaspíhafi sækja fjölmargir íranskir ferðamenn einkum frá borginni Tehran. 

Iraj Harirchi, aðtoðar heilbrgðisráðherra, þurrkaði svitann af sér þegar hann …
Iraj Harirchi, aðtoðar heilbrgðisráðherra, þurrkaði svitann af sér þegar hann hélt opinbera ræðu nýverið. Hann var smitaður af kórónuveirunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert