Á annan tug Norðmanna í einangrun

Bærinn Sauda, nyrsta sveitarfélag Rogaland-fylkis á vesturströnd Noregs. Í Sauda …
Bærinn Sauda, nyrsta sveitarfélag Rogaland-fylkis á vesturströnd Noregs. Í Sauda situr nú allt heimilisfólk tveggja heimila í einangrun vegna gruns um smit af völdum kórónuveiru. Alls sitja á annan tug manns í einangrun í Noregi í kjölfar ferðalaga um Ítalíu og fleiri áhættusvæði kórónusmits. Ljósmynd/Wikipedia.org/Vidar Solheim

Á annan tug Norðmanna sitja nú í einangrun vegna gruns um kórónuveirusmit á grundvelli áfangastaða þeirra á ferðalögum nýverið en fyrsta staðfesta smittilfellið í Noregi kom upp í gær þegar kona frá Tromsø greindist með veiruna.

Einn er í einangrun í Mo i Rana, bæ í Nordland-fylki, vegna ferðalags um áhættusvæði og er að sögn yfirlæknis sveitarfélagsins beðið eftir niðurstöðum sýnatöku. Þá situr par í einangrun í Ósló eftir að hafa verið á ferðalagi í Mílanó á Ítalíu og fundið til sjúkdómseinkenna eftir heimkomu til Noregs.

Í Sauda í Rogaland situr heimilisfólk tveggja heimila innandyra í einangrun og í Elverum, sem nú tilheyrir nýju fylki, Innlandet, áður Buskerud og Oppland, eru fimm manns í einangrun á meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku.

Reiknar með fleiri tilfellum

Bent Høie heilbrigðisráðherra segir norska ríkisútvarpinu NRK að ekkert af þessu komi á óvart, norsk stjórnvöld hafi búið sig undir það síðustu vikur að sjúkdómstilfelli taki að skjóta upp kollinum í Noregi og nú, þegar smitið breiði svo úr sér utan Kína sem raun ber vitni, megi gera ráð fyrir mun fleiri tilfellum á norskri grund.

Spurn eftir andlitsgrímum í Noregi hefur verið sem aldrei fyrr síðustu vikur og er nú svo komið að slíkur varningur er uppseldur í öllum apótekum landsins og kvað svo rammt að eftirspurn að framleiðendur slíkra gríma í Kína höfðu samband við norska heildsala fyrr í mánuðinum og föluðust eftir að kaupa grímur til baka, sem þegar höfðu verið sendar til Noregs. Daufheyrðust heildsalar við þeirri ósk.

Equinor biður fólk að vera heima

Enn er hægt að kaupa andlitsgrímur í vefverslunum sumra apóteka og greinir norska dagblaðið VG frá því að 2.500 slíkar hafi selst á hálfum þriðja tíma í gærkvöldi. „Við upplifum gríðarlega eftirspurn dags daglega og eins og staðan er núna eigum við engar grímur,“ segir Tonje Kinn, upplýsingafulltrúi lyfjadreifingaraðilans Norsk Medisinaldepot. Hún segir fleiri grímur koma til landsins í dag og fari þær beint út til þeirra apóteka sem hafi lagt inn pantanir.

Þá bárust fréttir af því í gærkvöldi að ríkisolíufyrirtækið Equinor, áður Statoil, hefði látið þau boð út ganga að allt starfsfólk sem verið hefði við störf eða í fríi á Ítalíu, í Kína, Íran og Suður-Kóreu nýverið ætti ekki að mæta til vinnu heldur halda sig heima við í 14 daga frá heimkomu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert