Hættan er raunveruleg

Starfsmaður heilsugæslustöðvarinnar í Garðabæ kominn í galla sem notaður er …
Starfsmaður heilsugæslustöðvarinnar í Garðabæ kominn í galla sem notaður er þegar taka þarf sýni úr fólki sem hugsanlega er smitað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sú hætta að kórónuveiran berist til Íslands er raunveruleg en framvindan ræðst fyrst og fremst af því hvernig öðrum þjóðum gengur með varnir og að einangra sig gagnvart veirunni,“ segir Ásmundur Jónasson, fagstjóri lækninga hjá Heilsugæslunni í Garðabæ.

Á heilsugæslustöðinni eins og öðrum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið komið upp margvíslegum viðbúnaði gagnvart kórónuveirunni. Tiltækir eru sloppar, hanskar, grímur og gleraugu sem læknar og hjúkrunarfólk setja upp þegar þarf að sinna fólki sem huganlega er með veiruna. Jafnframt er búnaður til sýnatöku á heilsugæslustöðvunum, að því er fram kemur í umfjöllun um kórónuveiruna í Morgunblaðinu í dag.

Tíu Íslendingar í sóttkví á Tenerife

Nú hafa 38 sýni verið rannsökuð af sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og öll reynst neikvæð. Ekki er heldur vitað til þess að Íslendingar hafi veikst erlendis. Tíu Íslendingar eru nú í sóttkví á hóteli á Tenerife.

„Það mæðir mikið á okkur í þessu starfi. Mikið er að gera í símaráðgjöf sem veitt er í síma 1700 og á heilsugæslustöðvunum. Fólki er líka beint inn á stöðvarnar,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Sigríður Dóra segir að sýnin séu bæði tekin í heimsóknum til veiks fólks og á heilsugæslustöðvunum. Starfsfólkið fer þá í hlífðargalla sem til eru á öllum heilsugæslustöðvum og setur upp grímur. Sigríður segir að reynt sé að hafa aðeins einn í þessu hlutverki í hvert skipti, ekki aðeins til að spara gallana, sem eru einnota, heldur ekki síður til að draga úr hættu á að fleiri smitist. Starfsfólkið þarf að fara úr göllunum á ákveðinn hátt til þess að verjast smiti. „Fólk er mjög samstíga um að gera þetta vel og fara eftir leiðbeiningum.“

Varað við Suður-Kóreu og Íran

Áhættan er nú metin daglega. Sóttvarnalæknir ræður nú fólki frá því að ferðast að nauðsynjalausu til Suður-Kóreu og Írans. Eru þessi tvö ríki nú á svæði sem skilgreint er sem áhættusvæði vegna kórónuveirunnar ásamt Kína og fjórum héruðum í norðurhluta Ítalíu. Þá mælist sóttvarnalæknir til þess að þeir sem hafa verið á þessum svæðum fari í fjórtán daga sóttkví og hafi samband við Læknavaktina eða heilsugæslustöð. Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hefur greinst í Noregi. Tvö tilfelli hafa greinst í Svíþjóð og í Finnlandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »