Hleypa 130 gestum af hótelinu og heim

Frá H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife, sem hefur verið …
Frá H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife, sem hefur verið í sóttkví frá því á þriðjudag. Nú mega 130 manns sem komu á hótelið á mánudag halda þaðan. AFP

Ákveðið hefur verið að hleypa 130 gestum sem verið hafa í sóttkví á H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife heim til sín. Þetta tilkynntu ráðamenn á Kanaríeyjum á blaðamannafundi í dag og sögðu þeir einnig mögulegt að allir þeir sem verið hafa í sóttkví á hótelinu gætu haldið heim til sín innan skamms, verði þeir áfram einkennalausir.

Tíu Íslendingar hafa verið í sóttkví á hótelinu, en fjórir ítalskir gestir sem þar dvöldu hafa greinst með kórónuveiruna. Fram kemur í frétt á vef Diario de Avisos að gestirnir 130 sem nú fá að yfirgefa hótelið og halda heim á leið séu af ellefu þjóðernum, en ekki er ljóst hvort einhverjir Íslendinganna séu þar á meðal.

Þeir sem fá að halda á brott af hótelinu í fyrstu eru þeir 130 einstaklingar sem tékkuðu sig inn á hótelið 24. febrúar, þegar Ítalirnir fjórir sem greindir hafa verið með veiruna voru þegar farnir af hótelinu.

Samkvæmt frétt Diario de Avisos hefur starfsmönnum hótelsins, sem eru um 200 talsins, einnig verið gefið grænt ljós á að ganga inn og út af hótelinu, að því gefnu að þeir grípi til varúðarráðstafana til þess að hindra mögulegt smit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert