Hleypti af voðaskoti við sjálfsmyndatöku

Ljósmynd/DAVID MCNEW

Barnapía í Houston í Bandaríkjunum er ákærð fyrir að hafa óvart skotið tíu ára gamlan dreng sem hún átti að gæta þegar hún gerði tilraun til að taka af sér sjálfsmynd á meðan hún hélt á byssu.

Stúlkan er nítján ára gömul og skaut hún drenginn í kviðinn en hún segist ekki hafa vitað að byssan væri hlaðin. BBC greinir frá þessu. 

Ástand drengsins er alvarlegt en búist er við því að hann muni ná sér að fullu. Byssukúlan sneiddi fram hjá mikilvægum líffærum drengsins. 

Vopnið fann barnapían á heimili drengsins en hún hafði ætlað að taka af sér sjálfsmynd með því. Lögregluyfirvöld í Houston segja atvikið harmleik og ítreka að skotvopn ættu ekki að vera notuð að gamni. 

6.155 manns hafa týnt lífi í Bandaríkjunum það sem af er ári vegna skotárása. 321 af þessum andlátum má rekja til voðaskota. 

Á síðasta ári létust 3.760 börn, yngri en átján ára, í skotárásum í Bandaríkjunum.

mbl.is