„Ég er ekki Bernie“

„Ég er ekki Bernie,“ stendur stórum stöfum á peysu sem Jeff Jones klæðist. Það stöðvar hins vegar ekki aðdáendur forsetaframbjóðandans í að óska eftir myndum með sér af tvífara Bernie Sanders þegar þeir rekast á hann á götum Los Angeles. 

Þeir eru nefnilega sláandi líkir. Jeff Jones, sem er 77 ára og því ári yngri en Sanders, var repúblikani um langt skeið en styður nú Demókrataflokkinn, ekki síst til að geta stutt tvífara sinn. Þá er hann einnig virkur í kosningabaráttunni. 

Dóttir Jones stakk upp á að hann klæddist peysunni, sem hefur vakið mikla lukku. Jones segir tilganginn einmitt vera að lífga aðeins upp á hlutina. „Pólitíska landslagið hefur verið einstaklega hrottafengið síðustu ár,“ segir Jones. 

Jones minnir ekki aðeins á Sanders í útliti heldur hefur honum einnig tekist að herma eftir líkamstjáningunni nær óaðfinnanlega, líkt og sjá má á myndskeiðinu hér að ofan. 

Bernie Sanders á góðan möguleika á að verða frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í nóvember, en hann vann ör­ugg­an sig­ur í for­vali Demó­krata­flokks­ins í Nevada-ríki í Banda­ríkj­un­um í síðustu viku. Niðurstaða forvalsins í Suður-Karólínu um helgina var hins vegar vonbrigði þar sem Joe Biden vann öruggan sigur. Næstkomandi þriðjudag, sem gjarnan er nefndur „ofurþriðjudagur“, fara línur örlítið að skýrast þegar for­kosn­ing­ar fara fram í 15 ríkj­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert