Fyrrverandi frambjóðendur styðja Biden

Joe Biden segir Pete Buttigieg, sem er 38 ára, minna …
Joe Biden segir Pete Buttigieg, sem er 38 ára, minna hann á son sinn Beau, sem lést árið 2015. AFP

Þrír fyrrverandi frambjóðendur í forvali Demókrataflokksins hafa lýst yfir stuðningi við Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, en stjórnmálaskýrendur vestanhafs virðast flestir sammála um að komið sé að ögurstundu fyrir hann. Í dag er enginn venjulegur þriðjudagur í Bandaríkjunum heldur „Ofurþriðjudagur“ (e. Super Tuesday), sem þykir marka tímamót í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum. 

Amy Klobuchar, Pete Buttigieg og Beto O'Rourke hafa öll dregið framboð sitt í forvali demókrata til baka, Klobuchar í gær og Buttigieg á sunnudag, en töluvert lengra er síðan O'Rourke dró framboð sitt til baka. Þau tóku öll þátt í kosningafundi Bidens í Texas í gær. 

„Ef við dveljum við það næstu fjóra mánuði að ala á sundrungu innan flokksins og fara gegn hvert öðru munum við horfa upp á Donald Trump rífa landið okkar í sundur næstu fjögur árin,“ sagði Klobuchar er hún stóð við hlið Bidens í gærkvöld.  

Joe Biden og Amy Klobuchar á kosningafundi í Dallas í …
Joe Biden og Amy Klobuchar á kosningafundi í Dallas í Texas í gær. AFP

1.344 kjörmenn í boði í dag

Forvalskosningar eða kjörfundir fara fram í 14 ríkjum í dag. Fimm frambjóðendur keppast enn um tilnefningu flokksins, en þeir voru á þriðja tug í upphafi baráttunnar. Öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont, Bernie Sanders, hefur þegar tryggt sér 60 kjörmenn, Biden 54, Elizabeth Warren átta en Tulsi Gabbard engan.

Michael Bloomberg tekur í fyrsta sinn þátt í forvali í dag, en hann hefur eytt miklu púðri, yfir hálfum milljarði dollara, í auglýsingar í ríkjunum 14, en þau eru: Kalifornía, Texas, Virginía, Massachusetts, Tennessee, Alabama, Arkansas, Oklahoma, Minnesota, Vermont, Colorado, Utah, North Carolina og Maine, ásamt austurhluta Samóa-eyjaklasans, sem heyrir undir Bandaríkin. 

Demókratar kjósa um 1.344 kjörmenn í dag en 1.991 kjörmann þarf til að tryggja sér útnefningu flokksins. Af frambjóðendunum fimm sem standa eftir er aðeins einn sem er ekki á áttræðisaldri. Gabbard, fulltrúardeildarþingkonan frá Havaí, er aðeins 38 ára. 

Næsta fjölmenna forval fer fram 17. mars þegar kosningar fara fram í fjórum ríkjum, meðal annars Flórída. Hér má sjá nánari útlistun á fyrirkomulagi forvalsins og hversu margir kjörmenn eru í boði í hverju ríki:

Sanders býður stuðningsmenn Buttigieg og Klobuchar velkomna

Buttigieg, sem átti nokkurri velgengni að fagna í upphafi forvalsins, dró framboð sitt til baka á sunnudag. Hann hafði þá tryggt sér 26 kjörmenn. „Ég er að leita að leiðtoga, ég er að leita að forseta sem mun draga fram það besta í okkur,“ sagði Buttigieg á kosningafundi Bidens fyrr í vikunni. Biden er þakklátur fyrir stuðninginn og segir Buttigieg, sem er 38 ára, minna hann á son sinn Beau, sem lést árið 2015. 

Sanders beindi orðum sínum að stuðningsmönnum frambjóðenda sem hafa dregið framboð sitt til baka á kosningafundi í Minnesota í gær. „Til milljóna stuðningsmanna Amy og Pete: Dyr mínar standa opnar, komið inn,“ sagði Sanders. 

Donald Trump, sem sækist eftir endurkjöri, fylgist grannt með forvali keppinauta sinna og hefur hann sett spurningarmerki við andlega heilsu Bidens og vísaði meðal annars í mismæli Bidens þar sem hann talaði um ofurfimmtudag í stað ofurþriðjudags. 

Trump sagði einnig að ef Biden kæmist í Hvíta húsið „myndu þeir koma honum fyrir á hjúkrunarheimili og láta aðra stjórna landinu. Og þeir verða ofurvinstrisinnaðir róttækir brjálæðingar.“

Frétt CNN

Frétt BBC

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert